• mið. 08. okt. 2008
  • Pistlar

Knattspyrnumótum sumarsins 2008 lokið

Geir Þorsteinsson
Geir_Torsteinsson_1

Knattspyrnumótum sumarsins 2008 er nú lokið og sigurvegarar hafa verið krýndir. Þúsundir leikja fóru fram með þátttöku iðkenda um land allt. Með sönnu má segja að knattspyrnan hafi mikil áhrif á mannlíf á Íslandi yfir sumarið og hefur svo verið áratugum saman. Knattspyrnan er vettvangur æskunnar til leiks og keppni en eflir um leið samskipti manna á milli sem oftar en ekki leiðir til vináttu um langan aldur. Það er dýrmæt reynsla hverjum iðkenda að gleðjast í meðbyr og sigri og sjá hverju samvinna liðsins getur áorkað en ekki er það síður góður skóli að takast á við mótbyr í ósigri og finna að samstaða getur skilað liðinu yfir erfiðar hindranir.

Það var ánægjulegt að sjá hve góðar móttökur Íslandsmótið fékk með þeim breytingum sem áttu sér stað á deildarkeppninni í meistaraflokki karla og kvenna og hið sama má segja um breytt fyrirkomulag á bikarkeppni meistaraflokks karla. Í fyrsta sinn var efsta deild karla leikin með 12 liðum og í fyrsta sinn var efsta deild kvenna leikin með 10 liðum. Landsbankadeild karla var miðpunktur knattspyrnustarfsins í sumar og naut deildin mikillar athygli fjölmiðla og almennings. Landsbankadeild kvenna tókst vel og mun með nýju fyrirkomulagi njóta enn meiri athygli á komandi árum.

Við lok keppnistímabilsins fer KSÍ yfir mótahaldið og metur hvað vel hefur tekist og ekki síður verður farið yfir þau atriði sem betur máttu fara. Í heild tókst framkvæmd mótanna vel en KSÍ hefur eins og fyrri ár borist ábendingar og kvartanir vegna leikja og jafnvel kærur. Eins og fyrr bárust flestar kvartanir vegna frammistöðu dómara. Það á jafnt við um leiki í yngri flokkum sem og í meistaraflokki. Slíkar kvartanir eru skoðaðar enda eiga þær í mörgum tilfellum rétt á sér. Það er hins vegar svo að mistök dómara eru hluti af leiknum og því þarf gagnrýni á störf dómara að vera málefnaleg og leiða til framfara. Hún á ekki að vera persónuleg og meiðandi. Á sama tíma verður KSÍ að standa enn betur að undirbúningi og þjálfun dómara. Það starf er í fullum gangi og hefur þegar skilað góðum árangri. Það verður þó aldrei svo að mistök eigi sér ekki stað en samt verðum við að bera virðingu fyrir þeim sem taka að sér það starf að dæma knattspyrnuleiki - rétt eins og við berum virðingu fyrir leikmönnunum sjálfum.

Ég vil þakka forystufólki aðildarfélaga KSÍ og þúsundum sjálfboðaliða fyrir frábær störf á liðnu tímabili og fyrir að halda merki knattspyrnunnar svo hátt á lofti sem raun ber vitni. Nú hefur KSÍ hafið undirbúning næsta knattspyrnusumars sem mun bjóða upp á ný og skemmtileg tækifæri. Ég hlakka til að hitta ykkur á vellinum 2009.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ