Landsleikjahrina í september og október
Þó svo að deildarkeppnin hér á landi hafi runnið sitt skeið á enda eru íslenskir knattspyrnumenn engu að síður önnum kafnir. Íslensk knattspyrnulandslið leika 23 landsleiki núna í september og október en flestir þessara leikja eru leiknir af yngri landsliðum okkar.
Flestir leikjanna eru í undankeppni EM hjá landsliðum U17 og U19 kvenna og karla en í dag hófst einmitt keppni í undankeppni hjá EM U17 kvenna á Ítalíu. Á laugardaginn leika svo strákarnir í U19 sinn fyrsta leik í undankeppni EM en riðill þeirra fer fram í Makedóníu. Áður hafa U17 karla og U19 kvenna leikið í undankeppni EM.
Tveir landsleikir eru framundan hjá A landsliði karla en landsliðið hélt utan í morgun til Hollands þar sem leikið verður við heimamenn á laugardaginn. Miðvikudaginn 15. október koma svo Makedóníumenn hingað til lands og leika á Laugardalsvellinum og er það síðasti landsleikur A karla í undankeppni EM á þessu ári. Þann 19. nóvember verður svo leikinn vináttulandsleikur við Möltu ytra.
Þá eru ótaldir umspilsleikir A kvenna við Íra en þessir leikir fara fram 26. október og 30. október. Fyrri leikurinn fer fram í Dublin en sá síðari hér á Laugardalsvelli. Sigurvegari úr þessari viðureign tryggir sér sæti í úrslitakeppni EM í Finnlandi 2009.