Tap hjá U19 kvenna í síðasta leiknum
Stelpurnar í U19 kvenna léku síðasta leik sinn í undankeppni EM í dag þegar þær mættu Írum en riðillinn var leikinn í Ísrael. Írar reyndust sterkari í dag og sigruðu með fimm mörkum gegn einu.
Fyrir leikinn höfðu þessar þjóðir tryggt sér sæti í milliriðlum keppninnar en þarna var verið að spila um efsta sæti riðilsins. Fyrirliðinn, Fanndís Friðriksdóttir, kom íslenska liðinu yfir á 12. mínútu eftir frábæra stungusendingu frá Dagnýju Brynjarsdóttur.
Írska liðið komst svo betur inn í leikinn og jöfnuðu metin á 32. mínútu eftir varnarmistök íslenska liðsins. Aðeins þremur mínútum síðar bættu þær írsku við öðru marki og leiddu þær því í hálfleik, 2-1.
Írska liðið var svo sterkara í síðari hálfleik og bætti við þremur mörkum og fögnðu öruggum sigri í leikslok, 5-1.
Keppni í milliriðlum fer fram 23. - 28. apríl á næsta ári. Þá verður leikið í sex fjögurra liða riðlum þar sem sigurvegari hvers riðils tryggir sér sæti í úrslitakeppninni. Þá fer sú þjóð einnig áfram sem er með bestan árangur í öðru sæti riðlanna. Áttunda þjóðin í úrslitakeppninni verða svo gestgjafarnir í Hvíta Rússlandi.