• lau. 27. sep. 2008
  • Landslið

Umspil framundan hjá Íslandi

A landslið kvenna
ksi-Akvenna

Íslenska kvennalandsliðinu tókst ekki að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM í dag en litlu munaði það.  Frakkar höfðu betur með tveimur mörkum gegn einu og eru Frakkar því á leiðinni til Finnlands en íslenska liðsins býður umspilsleikir og verður ljóst 6. október hverjir mótherjarnir verða.

Frakkar komust yfir strax á sjöttu mínútu og leiddu þannig í hálfleik.  Íslenska liðið náði ekki að sýna sínar bestu hliðar í fyrri hálfleiknum og höfðu Frakkar heldur yfirhöndina.  Stelpurnar komu mun ákveðnari í síðari hálfleikinn og fyrirliðinn, Katrín Jónsdóttir, jafnaði metin strax á annarri mínútu síðari hálfleiks.  Frakkar komust hinsvegar aftur yfir fáeinum mínútum síðar með marki eftir hornspyrnu.  Stelpurnar lögðu engu að síður alls ekki árar í bát og voru sterkari aðilinn í síðari hálfleiknum.  Þeim tókst hinsvegar ekki að knýja fram jöfnunarmarkið sem hefði tryggt þeim á EM og það voru Frakkar sem fögnuðu í leikslok.

Óneitanleg vonbrigði en hinsvegar er möguleikinn á sæti í úrslitakeppninni vel fyrir hendi ennþá og þetta tap skyggir alls ekki á frábæran árangur íslenska liðsins. 

Þann 6. október næstkomandi verður dregið um það hvaða þjóðir mætast í umspilsleikjum og verður spilað heima og heiman.  Fyrri leikir umspilsleikjanna fara fram 25. og 26. október en seinni leikirnir 29. og 30 október.