• mið. 24. sep. 2008
  • Landslið

Stelpurnar okkar - Myndbönd af kvennalandsliðinu

Íslenskir stuðningsmenn á Laugardalsvellinum
Islenskir_ahorfendur

Óðum styttist í stóra leikinn gegn Frökkum á laugardaginn.  Kvennalandsliðið og þeirra föruneyti hélt utan í morgun og hefst nú lokaundirbúningur liðsins á fullu.  Eins og áður hefur komið fram þá notast Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, mikið við myndbandstæknina í sínum undirbúningi.  Bæði skoðar hann upptökur af andstæðingum en ekki síst, býr hann til myndbönd til þess að koma stelpunum í rétta gírinn. 

Það má sjá nokkur af þessum myndböndum hér á forsíðu heimasíðunnar undir "Myndbönd".  Munum við svo setja hér inn myndbönd sem Sigurður Ragnar hefur notað í sínum undirbúningi, næstu daga fram að leik. 

Stelpurnar okkar - Myndbandið er sett saman og sýnt stelpunum fyrir leikinn gegn Serbíu ytra í maí síðastliðinn.  Sjálfur segir landsliðsþjálfarinn að þetta myndband hafi tekið langmestan tíma í "framleiðslu" en undir notar hann tónlist frá Íslandsvinunum í Coldplay. Svo mikið vann Sigurður Ragnar við myndbandið að samstarfsmaður hans í fræðsludeild, Dagur Sveinn Dagbjartsson, getur ekki hugsað sér að hlusta aftur á þessa annars ágætu hljómsveit.

Íslenska konan - Myndbandið gerði Sigurður Ragnar fyrir leikinn gegn Grikkjum hér heima í júní.  Lagið, sem er eftir Billy Joel, er sungið af Pálma Gunnarssyni en textinn er eftir íþróttafréttamanninn fyrrverandi, Ómar Ragnarsson.  Þjálfaranum finnst á stundum að þetta lag og texti hafi verið samið til kvennalandsliðsins.

Ísland - Sett saman fyrir leikinn gegn Slóveníu hér heima.  Farið aðeins aðrar leiðir í þessu myndbandi, texti og tónlist í aðalhlutverki.  Lagið heitir My name is Lincoln úr kvikmyndinni The Island.  Fyrst heyrði samt Siggi Raggi lagið í "trailer" af myndinni Elizabeth the Golden Age sem segir manni kannski að landsliðsþjálfarinn fari dálítið mikið í bíó.  Ætli að sé eitthvað væntanlegt með ABBA hjá honum?

Ísland um Ísland - Sett saman fyrir leikinn gegn Slóveníu á síðasta ári.  Ásmundur Haraldsson, yfirþjálfari Gróttu, fyrrum aðstoðarþjálfari Nördanna og reitaboltasérfræðingur, setti þetta myndband saman með Sigga Ragga.  Ásmundur hefur verið Sigga mikið innan handar í þessum myndböndum og leitt hann áfram í undraheimum myndbandstækninnar.  Þarna tóku þeir saman nokkur ummæli af bloggfærslum Íslendinga um landsliðið eftir sigurleikina gegn Frakklandi og Serbíu á síðasta ári.

Draumur - Þetta myndband var gert fyrir leikinn gegn Frökkum hér heima en sá leikur fór fram 16. júní 2007.  Lagið sem þeir Siggi Raggi og Ási Haralds notuðu í þessu er úr myndinni Gladiator og flutt af Lisu Gerrard.  Orðin í laginu eru ekki á neinu sérstöku tungumáli heldur orð sem söngkonan bjó til sjálf.  Leitað var til fjölmargra aðila um gamlar myndir af landsliðstelpunum.  Var talað við m.a. foreldra, vini, þjálfara og landsliðsnefndarfólk og tóku allir vel í þessa viðleitni.  Einnig voru stelpurnar beðnar um að koma með gamlar myndir af sér án þess að þær vissu í hvað átti að nota þær.  Sumar af þessum myndum voru svo notaðar í þetta myndband og kom þetta leikmönnum töluvert á óvart og vakti mikla lukku.

Draumur rætist - Þetta var sýnt fyrir leikinn gegn Serbum hér heima sem fram fór 21. júní 2007.  Aðsóknarmet var sett á þessum leik, 5.976 áhorfendur mættu á völlinn sem fór þó fram á óvenjulegum tíma, kl. 21:15 á fimmtudagskvöldi.  Myndbandið er í raun uppgjör á leiknum gegn Frakklandi sem fór fram 5 dögum áður.  Siggi Raggi og Ási Haralds gægjast upp úr popppokunum og undir hljómar írska hljómsveitin U2 með lagið Beautiful Day.  Lag sem oft er notað í syrpum enda gott tilefni til.  Skemmtilegt að rifja þennan leik upp fyrir leikinn á laugardaginn.

Fyrir Ísland - Þetta myndband var stelpunum sýnt fyrir vináttulandsleikina gegn Finnum í byrjun maí á þessu ári.  Þarna er safnað saman mörkum og eftirminnilegum atvikum úr leikjum liðsins upp á síðkastið.  Lagið sem hljómar undir á vel við en það nefnist Proud Nation (Stolt þjóð) og er með hljómsveitinni Immediate Music.  Sú hljómsveit sérhæfir sig í að búa til tónlist fyrir "trailera" á kvikmyndum

Mistök - Það er ekki alltaf dans á rósum að vera í kvennalandsliðinu.  Sérstaklega ekki þegar landsliðsþjálfarinn er alltaf með á upptöku og kann orðið á klippigræjur.  Í þessari syrpu, sem einnig var sett saman fyrir vináttulandsleikina gegn Finnum, hefur Sigurður Ragnar tekið saman ýmis atvik úr leikum og æfingum kvennlandsliðsins, þar sem ýmislegt fer úrskeiðis.  Þetta var fyrsta syrpan sem að Siggi Raggi gerði einn og óstuddur án hjálpar frá Ása Haralds og er hann mjög stoltur af henni.  Lagið heitir You had a bad day og, að því að best er vitað, er ekki úr neinni kvikmynd.  En væntanlega hefur Siggi Raggi heyrt lagið á leiðinni í bíó.