Sigur í fyrsta leiknum hjá U19 kvenna
Stelpurnar í U19 kvenna lögðu stöllur sínar frá Ísrael í fyrsta leiknum í undankeppni EM en riðillinn er leikinn í Ísrael. Lokatölur urðu 2-1 Íslandi í vil eftir að þær höfðu leitt, 1-0 í hálfleik.
Það var vel heitt á leikvellinum í Nahariya en leikurinn hófst kl. 16:00 að staðartíma í rúmlega 30 stiga hita. Íslenska liðið komst yfir í uppbótartíma í fyrri hálfleik og var það fyrirliðinn, Fanndís Friðriksdóttir, sem var þar að verki. Örstuttu síðar var flautað til hálfleiks og kærkomin hvíld var vel þegin í hitanum.
Heimastúlkur náðu svo að jafna leikinn á 70. mínútu en aðeins fimm mínútum síðar skoraði varamaðurinn Ásta Einarsdóttir annað mark Íslands og reyndist það vera sigurmark leiksins.
Góður sigur í fyrsta leik en næsti leikur liðsins er gegn Írum en sá leikur fer fram næstkomandi föstudag og hefst kl. 13:00 að íslenskum tíma.
Mynd: Fanndís Friðriksdóttir skoraði fyrra mark Íslands gegn Ísrael