Skotar höfðu betur í Laugardalnum
Skotar lögðu Íslendinga í fyrsta heimaleik Íslands í undankeppni fyrir HM 2010. Lokatölur urðu 1-2 Skotum í vil eftir að þeir höfðu leitt í hálfleik, 0-1.
Íslendingar byrjuðu leikinn af krafti og áttu góðar sóknir snemma leiks. Eiður Smári fékk sannkallað dauðafæri eftur um 17 mínútna leik en þrumuskot hans smaug yfir markið. Það kom svo gegn gangi leiksins, tveimur mínútum síðar, að Skotar komust yfir eftir mark úr hornspyrnu. Eftir markið róaðist leikurinn heldur en Hermann Hreiðarsson fékk gott færi seint í hálfleiknum en náði ekki að leggja boltann fyrir sig og Skotar hreinsuðu á línu.
Seinni hálfleikur byrjaði af krafti og fengu Íslendingar þrjár hornspyrnur á fyrstu þremur mínútunum. Engin færi litu hinsvegar dagsins ljós en á 60. mínútu fengu Skotar dæmda vítaspyrnu. Kjartan Sturluson varði spyrnuna en gestirnir voru fljótari að átta sig, náðu frákastinu og settu boltann í netið.
Þegar um 15 mínútur lifðu leiks dró svo til tíðinda en þá handlék fyrirliði Skota knöttinn þegar Heiðar Helguson gerði sig líklegan til að skalla knöttinn í netið. Vítaspyrna dæmd og Stephen McManus fékk að líta rauða spjaldið. Eiður Smári skoraði af öryggi úr vítinu og eftir það lögðust gestirnir alveg til baka og Íslendingar sóttu án afláts. Besta færið kom svo í uppbótartíma þegar Heiðar Helguson náði góðu skoti úr teignum en boltinn hafnaði í höfði eins varnarmanns Skota, sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, og smaug framhjá markinu. Þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af uppbótartíma flautaði belgíski dómarinn leikinn af og sigur Skota staðreynd.
Það var íslenska liðið sem fékk færin í leiknum en Skotarnir voru duglegir að verjast og höfðu þrjú stigin úr Dalnum að þessu sinni.
Einn annar leikur fór fram í 9. riðlinum í kvöld þar sem Holland vann Makedóníu í Makedóníu með tveimur mörkum gegn einu. Næsti leikur Íslands er einmitt gegn Hollandi í Rotterdam laugardaginn 11. október. Í kjölfarið fylgir svo heimaleikur gegn Makedóníu, miðvikudaginn 15. október.