• lau. 06. sep. 2008
  • Landslið

Eitt stig frá Osló

Við erum öll í íslenska landsliðinu!
ahorfendur-10

Íslenska landsliðið gerði jafntefli vð Norðmenn í dag í fyrsta leik liðsins í undankeppni HM 2010.  Lokatölur urðu 2-2 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 1-1.  Það voru þeir Heiðar Helguson og Eiður Smári Guðjohnsen sem skoruðu mörk Íslands í leiknum.

Það fylgir því alltaf tilhlökkun að spila fyrsta leik í undankeppni og strákarnir voru vel stemmdir allt frá byrjun.  Eins og búist var við voru Norðmenn meira með boltann að þeir náðu ekki að skapa sér nein opin færi. 

Á 33. mínútur dæmdi ísraelsi dómarinn vítaspyrnu á íslenska liðið sem að Steffen Iverson skoraði úr.  Þrátt fyrir að leikmenn væru ósáttir við vítaspyrnudóminn lögðu þeir ekki árar í bát og aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Heiðar Helguson metin með skalla eftir aukaspyrnu frá Emil Hallfreðssyni. 

Þannig var staðan er gengið var til búningsherbergja í leikhléi en eftir aðeins fimm mínútna leik kom Steffen Iverson heimamönnum yfir að nýju með skalla.  En sem fyrr var engin uppgjöf í íslenska liðinu og á 65. mínútu jafnaði Eiður Smári Guðjohnsen metin með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu.

Það sem eftir lifði leiks voru það Norðmenn er sóttu töluvert meira en besta færið féll hinsvegar í hlut Íslendinga þegar Veigar Páll Gunnarsson, nýkominn inná sem varamaður, átti þrumuskot í innanverða stöngina er fimm mínútur lifðu efitir leiks.

Jafntefli staðreynd sem hljóta að þykja góð úrslit gegn nokkuð sigurvissum Norðmönnum.  Framundan er hörkuleikur gegn Skotum næstkomandi miðvikudag á Laugardalsvelli og hefst hann kl. 18:30.  Skotar biðu lægri hlut gegn Makedóníu í dag með einu marki gegn engu.

Það má búast við mikilii stemmningu á miðvikudaginn en miðasla á leikinn er í fullum gangi í gegnum miðasölukerfi hjá midi.is.