• mið. 20. ágú. 2008
  • Landslið

Jafntefli við Asera í Laugardalnum

Sigurmarki Íslendinga gegn Norður Írlandi vel fagnað
Marki_fagnad_N_Irland

Íslendingar gerðu í kvöld jafntefli gegn Aserum í vináttulandsleik í knattspyrnu en leikið var á Laugardalsvelli.  Hvort lið skoraði eitt mark í leiknum og var það Grétar Rafn Steinsson sem jafnaði leikinn fyrir Íslendinga í síðari hálfleik.

Leikurinn fór rólega af stað og Aserar fengu fyrsta færið í leiknum sem að Stefán Logi sá við.  Íslenska liðið tók svo við sér og upp úr miðjum hálfleiknum fékk Eiður Smári tvö góð marktækifæri eftir góðar sóknir.  Í bæði skiptin var það markvörður Asera sem sá við Eiði.  Birkir Már Sævarsson fékk svo einnig gott færi í fyrri hálfleiknum en hitti boltann ekki nógu vel með vinstri fæti svo að boltinn fór framhjá.

Markalaust í hálfleik en Aserar fengu óskabyrjun í síðari hálfleik þegar þeir komust yfir með marki beint úr aukaspyrnu eftir þriggja mínútna leik.  Það tók Íslendinga aðeins tíu mínútur að jafna leikinn og var þar að verki Grétar Rafn Steinsson með glæsilegum skalla.  Markið kom eftir aukaspyrnu frá Jóhanni Berg Guðmundssyni sem var að leika sinn fyrsta landsleik.  Íslenska liðið sótti töluvert eftir þetta en tókst ekki að skapa sér opin marktækifæri.  Heldur róaðist leikurinn þegar leið á og niðurstaðan var jafntefli þegar að dómari leiksins, Simon Lee Evans, flautaði til leiksloka.

Þessi vináttulandsleikur var síðasti leikur fyrir fyrsta leik í undankeppni fyrir HM 2010 en Norðmenn verða fyrstu mótherjar Íslendinga þann 6. september í Osló.  Miðvikudaginn 10. september er svo komið að fyrsta heimaleik Íslendinga í keppninni en þá koma Skotar í heimsókn.