• fös. 15. ágú. 2008
  • Landslið

Damkova dæmir í Frakklandi

Dagmar_Damkova
Dagmar_Damkova

Eins og kunnugt er leikur íslenska kvennalandsliðið í Frakklandi, laugardaginn 27. september, en þá verður leikið gegn Frökkum í lokaleik liðanna í undankeppni EM 2009.  Íslenska liðinu dugir jafntefli til þess að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni í Finnlandi á næsta ári.

Dómarar leiksins koma frá Tékklandi en Dagmar Damkova mun meðhöndla flautuna.  Dagmar er ein af fremstu dómurum heimsins og dæmdi m.a. undanúrslitaleik Þýskalands og Noregs í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins er fram fór í Kína á síðasta ári.  Hún dæmdi svo úrslitaleikinn á milli Bandaríkjanna og Brasilíu á nýafstöðnum Olympíuleikum í Kína.  Dagmar dæmdi einnig leik Íslands og Serbíu á síðasta ári hér á Laugardalsvelli.  Dagmar Damkova hefur verið alþjóðlegur dómari frá árinu 1999 en árið 2003 varð hún fyrsti kvendómarinn til þess að dæma í efstu deild karla í Tékklandi.

Aðstoðardómarar hennar verða þær Pavla Turkova Lucie Ratajova.  Dómaraeftirlitsmaður UEFA á leiknum verður hin sænska Ingrid Jonsson en hún er Íslendingum að góðu kunn. Ingrid var dómaraeftirlitsmaður hér á landi í leikjum gegn Slóveníu og Serbíu ásamt því að starfa á úrslitakeppni U19 kvenna er fór fram hér á landi á síðasta ári.

Leikur Frakklands og Íslands fer fram laugardaginn 27. september og hefst kl. 14:00 að íslenskum tíma.  Leikið verður á Henri-Desgrange vellinum í La Roche-sur-Yon.