• mið. 30. júl. 2008
  • Fræðsla

Ábendingar til mótshaldara um opin mót

Uppeldi ungra leikmanna þarf að vera tryggt
5_flokkur_Breidablik_2006

Við skipulagningu móta/leikja í yngstu aldursflokkum er mikilvægt að hafa í huga að þar eru börn að leik.  Umgjörð og skipulag á að miða að því að upplifun barnanna verði sem jákvæðust.

Við framkvæmd er gott að hafa nokkur atriði í huga:

  • Afmarka áhorfendasvæði:  Það er vissulega mikilvægt fyrir börnin að foreldrar og/eða forráðamenn styðji við bakið á þeim.  Hinsvegar skulu áhorfendur hafa í huga að skemmtun barnanna er aðalatriðið.  Alltof oft eru áhorfendur of nálægt leikvelli og skulu mótshaldarar gæta þess að áhorfendur séu við hliðarlínu og ekki nær velli en þremur metrum.  Afmarka skal áhorfendasvæði greinilega með borða, böndum eða öðrum hætti.
  • Hæfilegt leikjamagn á lið og leikmenn:  Mótshaldarar skulu gæta þess að leikjamagn á hvert lið og leikmenn sé með hæfilegum hætti.  Komið hefur fyrir að mismunandi margir leikir séu á hvert lið þegar leikið er t.d. í A, B og C liðum.  Mikilvægt er að hafa gætur á þessu þannig að leikjamagn t.d. A liðs og B liðs hvers félags sé eðlilegt.
  • Fundur í upphafi móts:  Gott er að halda fund í upphafi móts með forráðamönnum liðanna þar sem farið er yfir reglur og framkvæmd mótsins.  Við þetta tækifæri er æskilegt að vekja athygli á Foreldrabæklingi KSÍ “Spilaðu með en þar er að finna góðar ábendingar til foreldra hvernig þau eiga að haga sér í tengslum við knattspyrnuleiki.
  • Rétt aldursskipting:  Mótshaldarar skulu gæta þess að hafa rétta aldurskiptingu í mótum sínum.  Það dregur úr ánægju þátttakenda ef að leikmenn úr eldri flokkum eru að leika gegn þeim yngri.  Jafnframt skal hafa í huga reglur KSÍ um aldursflokkaskiptingar, en þar segir m.a. að enginn megi leika með yngri aldursflokki en honum ber.    
  • Réttindi dómara:  Leitast skal við að dómarar með tilskilin réttindi dæmi á mótum og að dómararnir þekki reglur mótsins.  Einnig að þeir aðilar sem sinna dómgæslu á slíkum mótum sinni hlutverki sínu af virðingu t.d. varðandi klæðaburð og framkomu á leikstað.
  • Leikvellir:  Leikvellir sem á er leikið geta tekið mið af þeim aldursflokki er leikur hverju sinni.
  • Verðlaun:  Varðandi verðlaun á opnum mótum er gott að hafa í huga stefnuyfirlýsingu KSÍ um barna- og unglingaþjálfun.  Þar kemur fram að hjá 10 ára og yngri skulu allir þátttakendur fá sömu viðurkenningu.  Hjá 11 - 12 ára vinna svo lið til verðlauna.  Á aldrinum 13 - 16 ára vinna svo lið og einstaklingar til verðlauna.