• þri. 29. júl. 2008
  • Landslið

Rautt spjald og mark úr víti á fyrstu mínútu

U17 landslið karla
ksi-u17karla

Byrjunin á fyrsta leik U17 landsliðs karla á Opna Norðurlandamótinu var ekki sú sem leikmenn liðsins höfðu óskað sér.  Á fyrstu mínútu leiksins fékk Sigurður Egill Lárusson dæmda á sig vítaspyrnu fyrir að handleika knöttinn innan vítateigs eftir markskot Norðmanna.  Sigurður fékk að líta rauða spjaldið og úr vítaspyrnunni skoruðu Norðmenn fyrsta mark leiksins.

Strákarnir okkar lögðu ekki árar í bát eins og þeirra var von og vísa.  Með miklu harðfylgi náðu þeir að jafna metin á 25. mínútu og var þar að verki Ólafur Karl Finsen.  Aðeins mínútu síðarnáði norska liðið aftur forystunni, en þrátt fyrir það gáfust leikmenn Íslands ekki upp og börðust af miklum krafti allan leikinn.

Það var svo í uppbótartíma sem Norðmenn skoruðu tvö mörk, en þá farið var að draga verulega af íslenska liðinu eftir stöðugar sóknir Norðmanna.  Lokatölur leiksins urðu því 4-1, Norðmönnum í vil, en eflaust hefðu úrslitin verið öðruvísi ef okkar drengir hefðu ekki verið manni færri frá fyrstu mínútu.

Í hinum leik B-riðils unnu Englendingar Finna með einu marki gegn einu.  Í A-riðli unnu Skotar þriggja marka sigur á Færeyingum og Danir unnu heimamenn, Svía, með tveimur mörkum gegn einu.

Næsta umferð er í dag, þriðjudag, en þá mæta Íslendingar liði Englands og hefst leikurinn kl. 16:00 að íslenskum tíma.