• fös. 25. júl. 2008
  • Fræðsla

Heimsókn til Finnlands og Sviss

Úr leik Fylkis og Keflavíkur í Landsbankadeild kvenna 2006.  Mynd tekin af Einari Ásgeirssyni
Fylkir-Keflavik_Landsbankadeild_kvenna_2006

Fyrr á þessu ári setti Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) á laggirnar svokallað UEFA Study Group Scheme, eða vettvangsverkefni, sem felur í sér að knattspyrnusambönd í Evrópu geta sótt um styrk frá UEFA til að heimsækja önnur knattspyrnusambönd í álfunni með það fyrir augum að kynna sér starfsemi þar í landi.

Knattspyrnusamband Íslands hefur fengið vilyrði frá UEFA um að heimsækja Finnland til að kynna sér knattspyrnu kvenna þar í landi og ákveðið hefur verið að bjóða öllum þjálfurum liðanna í Landsbankadeild kvenna að fara í þessa ferð. Haldið er út til Finnlands þriðjudaginn 25. nóvember og komið heim föstudaginn 28. nóvermber.

Þá hefur einnig verið ákveðið að fara með hóp til Sviss dagana 3.-6. nóvember til að kynna sér þjálfun barna og unglinga. Skipulagning þeirrar ferðar er á byrjunarstigi.

Með þessu er KSÍ einnig að skuldbinda sig til að taka á móti hópum frá öðrum knattspyrnusamböndum í Evrópu. Því gæti svo farið að slíkur hópur heimsækir land og þjóð á næstu misserum en slík verkefni eru til þess fallin að styrkja samskipti aðildarsambanda UEFA enn frekar.

Knattspyrnusamband Íslands fagnar því að UEFA skuli sjá hag sinn í því að styðja við bakið á aðildarsamböndum til slíkra ferða. Enginn vafi leikur á að hér er um mikinn ávinning að ræða og möguleikarnir miklir.