• mán. 21. júl. 2008
  • Leyfiskerfi

Vegna brottvikningar þjálfara

Þjálfarar að störfum
coaching2

Leyfisstjórn hefur borist fjöldi fyrirspurna um hvaða reglur gilda þegar þjálfara meistaraflokks karla er vikið frá störfum hjá félögum sem undirgangast leyfiskerfi KSÍ, þ.e. hjá félögum í Landsbankadeild karla og 1. deild karla.

Skoða verður málið í samhengi tveggja forsendna í leyfishandbók KSÍ - útgáfu 2.0, en sú handbók tók gildi fyrir keppnistímabilið 2007.  Útgáfa 2.0 tók eilítið öðruvísi á þessum málum en útgáfa 1.0.  Upplýsingar um allt þetta er að finna í leyfishandbókinni, en má einnig sjá hér að neðan.

A-forsenda S.08 - Aðalþjálfari meistaraflokks

Félagið verður að skipa aðalþjálfara sem er ábyrgur fyrir knattspyrnulegri stjórnun meistaraflokks félagsins.  Hann verður að uppfylla eftirfarandi kröfur um menntun: 

a) UEFA Pro þjálfaragráðu, eða

b) KSÍ A (UEFA A) þjálfaragráðu (æðsta þjálfaragráða KSÍ), eða þjálfaragráðu sem metin er sem sambærileg (og viðurkennd af UEFA sem slík), eða

c) KSÍ B (UEFA B) þjálfaragráðu og lokið stigi KSÍ VI, eða þjálfaragráðu sem metin er sem sambærileg (og viðurkennd af UEFA sem slík), og sækja nauðsynleg námskeið hjá KSÍ til að geta lokið KSÍ A þjálfaragráðu eins fljótt og unnt er miðað við framboð KSÍ á námskeiðum, eða

d) “Viðurkenningu um hæfni” frá fræðslunefnd KSÍ sem hann getur sótt um ef hann hefur minnst 5 ára starfsreynslu að baki sem yfirþjálfari hjá félagi með samningsbundna leikmenn í efstu (tveimur) deildum og/eða landsliðs hjá knattspyrnusambandi, sem á aðild að FIFA (í gildi til ársloka 2008).

Hann skal ráðinn af stjórn félagsins og vera skráður hjá KSÍ. 

B-forsenda S.15 - Skylda um endurráðningu á leyfistímabilinu

Ef starf sem er skilgreint í forsendum S.02 – S.12 losnar á keppnistímabilinu (leyfistímabilinu) þá ber félaginu að tryggja að starfið annist

a)      einstaklingur sem fullnægir þeim kröfum sem starfið gerir og getur þar með tekið við því til frambúðar, eða

b)      einstaklingur sem fullnægir ekki þeim kröfum sem starfið gerir og uppfyllir þar með ekki forsenduna (og verður þar með að líta á það sem tímabundna ráðningu sem vari ekki lengur en til loka keppnistímabils).

Ef starf sem er skilgreint í forsendum S.02 – S.12 losnar vegna ákvörðunar stjórnar félagsins (t.d. uppsögn aðalþjálfara), þá ber félaginu að tryggja að við starfinu taki

a)      einstaklingur sem fullnægir þeim kröfum sem starfið gerir (og getur þar með tekið við því til frambúðar).

Tilkynna þarf KSÍ um endurráðninguna innan viku.

KSÍ er skylt að kanna hvort þessu hefur verið framfylgt af leyfisumsækjanda við næstu leyfisumsókn.

Ef þessi forsenda er ekki uppfyllt skulu viðurlög vera skv. grein 2.2.3.5.

Viðurlög skv. grein 2.2.3.5

B forsendur

Ef ákveðin B forsenda er ekki uppfyllt skal taka mið af eftirfarandi viðurlögum:

a)         Fyrsta skipti, viðvörun.

b)         Annað skipti, áminning og sekt að upphæð allt að kr 25.000.

c)         Eftir það, áminning og sekt að upphæð allt að kr 50.000.       

Ítrekunarkvöð fellur niður ef forsendan hefur verið uppfyllt í 2 ár samfleytt.

Frekari viðurlög geta átt við í sérstökum tilfellum, eins og að skylda félag til að senda réttindalausan þjálfara á þjálfaranámskeið til að afla sér tilskilinna réttinda innan ákveðinna tímamarka, o.s.frv.