• fim. 26. jún. 2008
  • Landslið

Sól og sigur í Laugardalnum

Byrjunarlið Íslands gegn Slóveníu á Laugardalsvelli í júní 2008.  Ísland sigraði 5-0 með mörkum frá Margréti Láru Viðarsdóttur 3, Katrínu Jónsdóttur og Katrínu Ómarsdóttur
Byrjunarlid_Islands_gegn_Sloveniu_juni_2008

Íslenska kvennalandsliðið bætti enn einni rósinni í hnappagatið er þær lögðu Grikki á Laugardalsvelli í dag.  Lokatölur urðu 7 - 0 íslenska liðinu í vil og skoraði Hólmfríður Magnúsdóttir þrennu í leiknum.  Íslandi dugir jafntefli í síðasta leik sínum í Frakklandi 27. september til þess að tryggja sér sæti í lokakeppni EM 2009.

Íslensku stelpurnar höfðu mikla yfirburði allan leikinn og komust yfir strax á fjórðu mínútu leiksins þegar Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði fyrsta mark leiksin.  Hólmfríður Magnúsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir bættu við mörkum áður en að þýski dómarinn flautaði til hálfleiks.

Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri og aðeins spurning hversu stór sigurinn mundi verða.  Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði tvö fyrstu mörk hálfleiksins áður en að Katrín Ómarsdóttir bætti við sjötta marki Íslands.  Það var svo Margrét Lára Viðarsdóttir sem að skoraði sjöunda mark Íslands og þar við sat.

Áhorfendur, sem voru 5.323 talsins, fögnuðu stelpunum vel og lengi eftir leikinn og landsliðskonurnar þökkuðu fyrir góðan stuðning á vellinum.

Það er ljóst að þann 27. september fer fram úrslitaleikur í riðlinum um hvort Ísland eða Frakkland komist í úrslitakeppni EM 2009 sem fer fram í Finnlandi.  Íslenska liðinu dugir jafntefli í þeim leik.  Leikurinn fer fram á Henri-Desgrange leikvanginum í borginni La Roche-sur Yon.