Ísland - Grikkland fimmtudaginn 26. júní kl. 16:30
Ísland tekur á móti Grikklandi í undankeppni EM kvenna 2009 og fer leikurinn fram á Laugardalsvelli, fimmtudaginn 26. júní kl. 16:30. Leikurinn er síðasti heimaleikur stelpnanna í þessari undankeppni.
Leikurinn er gríðarlega mikilvægur íslenska liðinu því sigur í þessum leik kemur íslenska liðinu á toppinn í sínum riðli en efsta sætið tryggir þátttökurétt í úrslitakeppni EM 2009 sem fram fer í Finnlandi. Liðið er sem stendur þremur stigum á eftir Frökkum en Ísland mætir svo franska liðinu á útivelli í síðasta leiknum. Sigur á fimmtudaginn mundi þýða að íslenska liðiðinu nægir jafntefli í Frakklandi til þess að efsta sætið verði þeirra.
Um fjögur þúsund áhorfendur mættu á leikinn gegn Slóveníu og voru svo sannarlega með á nótunum. Það voru stelpurnar einnig því að þær unnu góðan sigur og átti góður stuðningur stóran þátt í þeim sigri. Stelpurnar treysta á stuðning á fimmtudaginn enda eftir miklu sækjast.
Miðasala á leikinn hefst í dag á www.midi.is en einnig er hægt að nálgast miða hér á síðunni. Miðinn kostar 1000 krónur fyrir fullorðna en frítt er fyrir börn 16 ára og yngri.
Ísland og Grikkland hafa þrisvar sinnum mæst í A landsleik kvenna og hefur íslenska liðið ætíð farið með sigur af hólmi. Síðast áttust þessar þjóðir við í maí á síðasta ári í Grikklandi og unnu stelpurnar þar með þremur mörkum gegn engu.
Taktu þátt í því að gera drauminn að veruleika, Ísland á EM.