Fyrsta kvennalandsliðið gestir á leiknum gegn Slóveníu
Liðsmenn fyrsta kvennalandsliðs Íslands voru heiðursgestir á landsleik Íslands og Slóveníu á laugardag. Fyrsti leikurinn var gegn Skotum ytra þann 20. september 1981, en leiknum lauk með sigri Skota 2-1. Af þeim 16 leikmönnum sem voru í hópnum árið 1981 áttu 9 leikmenn heimangengt á landsleikinn á laugardag. Fyrir leik og að leik loknum þáðu leikmennirnir veitingar í boði KSÍ og stilltu þær sér upp til myndatöku ásamt Geir Þorsteinssyni, formanni KSÍ, og Svanfríði Guðjónsdóttur, sem fyrst kvenna tók sæti í stjórn KSÍ og var fararstjóri í Skotlandi, að leik loknum.
Til gamans má geta þess að Ragnheiður Jónasdóttir er önnur tveggja íslenskra landsliðskvenna sem hafa verið valdar í landslið annars vegar sem markmaður og hins vegar sem útleikmaður. Hinn leikmaðurinn er Erna Lúðvíksdóttir sem á 13 landsleiki að baki.
Aftari röð frá vinstri (landsleikir í sviga): Svanfríður Guðjónsdóttir, í kvennanefnd KSÍ 1981, Jónína Kristjánsdóttir (1), Svava Tryggvadóttir (8), Magnea Helga Magnúsdóttir (12), Ragnheiður Jónasdóttir (3), Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Fremri röð frá vinstri: Brynja Guðjónsdóttir (8), Ásta María Reynisdóttir (12), Rósa Áslaug Valdimarsdóttir (5), Ásta B. Gunnlaugsdóttir (26), Ragnheiður Víkingsdóttir (8).