• lau. 21. jún. 2008
  • Landslið

Öruggur sigur á Slóveníu

Við erum öll í íslenska landsliðinu!
ahorfendur-11

Íslenska kvennalandsliðið vann öruggan sigur á Slóvenum í dag með fimm mörkum gegn engu.  Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði þrjú mörk í leiknum og þær Katrín Jónsdóttir og Katrín Ómarsdóttir skoruðu eitt hvor.

Margrét Lára kom íslenska liðinu yfir á 11. mínútu úr vítaspyrnu og eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn mundi lenda.  Margrét bætti svo öðru markinu við á 26. mínútu eftir góða sendingu frá Hólmfríði Magnúsdóttur.  Þannig var staðan þegar hollenski dómarinn flautaði til hálfleiks en 3.922 áhorfendur fengu fleiri mörk í síðari hálfleiknum.

Margrét Lára Viðarsdóttir fullkomnaði þrennuna eftir aðeins fimm mínútna leik í seinni hálfleiknum.  Hún hefur nú skorað 40 mörk í 42 landsleikjum sem er einfaldlega magnaður árangur.  Fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir skoraði fjórða markið eftir vel útfærða aukaspyrnu og Katrín Ómarsdóttir átti lokaorðið með marki skömmu fyrir leikslok.

Sannfærandi sigur íslenska liðsins sem heldur draumnum um að komast í úrslitakeppnina í Finnlandi sprelllifandi.  Á fimmtudaginn tekur Ísland á móti Grikklandi og er það síðasti heimaleikur Íslands í þessari undankeppni.  Sá leikur er kl. 16:30 á Laugardalsvelli og er þetta síðasta tækifæri fyrir þjóðina að sjá stelpurnar á heimavelli í þessari keppni.  Íslenskur sigur í þeim leik þýðir úrslitaleik gegn Frökkum

Staðan í riðlinum