Leikur Guðrún Sóley sinn 50. landsleik?
Varnarmaðurinn Guðrún Sóley Gunnarsdóttir mun væntanlega leika sinn 50. A landsleik á morgun gegn Slóveníu en hún hefur verið einn af lykilmönnum í varnarleik liðsins. Þá mun Edda Garðarsdóttir líklega leika sinn 60. landsleik gegn Slóveníu.
Guðrún Sóley lék sinn fyrsta A landsleik í október 1999 þegar hún kom inn á sem varamaður í leik gegn Þjóðverjum. Hún hefur alls leikið 86 landsleiki með landsliðum Íslands og hefur skorað í þeim eitt mark. Það kom nú í mars þegar Ísland vann Finnland á Algarve Cup.
Guðrún Sóley bætist því í fríðan hóp leikmanna er leikið hafa 50 landsleiki eða meira en hún er 9. landsliðskonan sem nær þeim áfanga. Hinar eru:
- Katrín Jónsdóttir - 73 leikir
- Ásthildur Helgadóttir - 69 leikir
- Edda Garðarsdóttir - 59 leikir
- Þóra B. Helgadóttir - 57 leikir
- Guðlaug Jónsdóttir - 56 leikir
- Erla Hendriksdóttir - 55 leikir
- Olga Færseth - 54 leikir
- Margrét R. Ólafsdóttir - 51 leikir
Edda Garðarsdóttir mun líklega leika sinn 60 landsleik á morgun. Hún lék sinn fyrsta landsleik árið 1997 á Laugardalsvelli þegar hún kom inn á sem varamaður í sigurleik gegn Úkraínu. Í leikjunum 59 hefur hún skorað 2 mörk. Alls hefur hún leikið 86 landsleiki með landsliðum Íslands og hefur gert í þeim 5 mörk.
Það er landsliðfyrirliðinn, Katrín Jónsdóttir, sem er landsleikjahæsta íslenska konan en hún hefur leikið 73 landsleiki og bætir metið með hverjum leiknum sem hún leikur.