• fim. 19. jún. 2008
  • Landslið

Fyrstu landsliðskonur Íslands sérstakir gestir

Alidkv1981-0001
Alidkv1981-0001

Sérstakir gestir KSÍ á landsleiknum við Slóvena á laugardaginn verða þeir leikmenn er skipuðu fyrsta landsliðshóp Íslands í knattspyrnu kvenna. 

Fyrsti landsleikurinn var leikinn gegn Skotum ytra og fór fram í Kilmarnock 20. september.  Leiknum lauk með sigri Skota, 3-2, eftir að staðan í hálfleik hafði verið 1-0.  Íslenska liðið komst svo yfir í seinni hálfleik með mörkum frá Bryndísi Einarsdóttur og Ástu B. Gunnlaugsdóttur en heimamenn tryggðu sér sigur með tveimur mörkum undir lok leiksins.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan en til samanburðar má nefna að á þessu ári leikur íslenska kvennalandsliðið amk. 10 landsleiki en fyrstu fimm árin, frá 1981 - 1985, lék A landslið kvenna samtals níu landsleiki.

Alidkv1981-0001

Fyrsta kvennalandslið Íslands í Skotlandi 1981.

Aftari röð frá vinstri: Gunnar Sigurðsson formaður kvennanefndar, Guðmundur Þórðarson þjálfari, Svanfríður Guðjónsdóttir kvennanefnd KSÍ, Sigrún Cora Barker, Kristín Aðalsteinsdóttir, Jónína Kristjánsdóttir, Svava Tryggvadóttir, Magnea H. Magnúsdóttir, Kristín Reynisdóttir, Ragnheiður Jónasdóttir,  Ellert B. Schram formaður KSÍ og Murdo MacDougall, fyrrum þjálfari á Íslandi.  

Fremri röð frá vinstri:  Brynja Guðjónsdóttir, Ásta María Reynisdóttir, Rósa Á. Valdimarsdóttir, Ásta B. Gunnlaugsdóttir, Bryndís Valsdóttir, Guðríður Guðjónsdóttir, Bryndís Einarsdóttir, Hildur Harðardóttir og Ragnheiður Víkingsdóttir.