Góður árangur hingað til gegn Grikklandi
Framundan eru gríðarlega mikilvægir leikir gegn Slóveníu og Grikklandi hjá kvennalandsliðinu en liðið er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni EM 2009. Íslenska kvennalandsliðinu hefur gengið vel gegn Grikkjum en aðeins einu sinni hefur verið leikið gegn Slóveníu. Sá leikur fór fram 26. ágúst í fyrra en þá töpuðu Íslendingar, 2-1. Þetta eru einu stigin sem að Ísland hefur tapað til þessa í undankeppni EM.
Betur hefur gengið í leikjum gegn Grikklandi. Þessar þjóðir hafa leikið þrisvar sinnum og hafa íslensku stelpurnar farið með sigur af hólmi í öllum þremur leikjunum. Markatalan er íslenska liðinu hagstæð, hafa skorað 12 mörk en fengið einungis 1 mark á sig. Í heimaleik Grikkjana í þessari undankeppni fór Íslendingar með sigur af hólmi, 0-3. Það voru Margrét Lára Viðarsdóttir, Ásthildur Helgadóttir og Greta Mjöll Samúelsdóttir sem skoruðu mörkin.
Eftirminnilegasti leikur Íslands og Grikklands var hinsvegar leikinn í Katarini í Grikklandi og var liður í undankeppni fyrir EM 1995. Íslensku stelpurnar sigruðu þá heimastúlkur með sex mörkum gegn einu. Ásthildur Helgadóttir gerði sér lítið fyrir í þeim leik og skoraði fjögur mörk. Leikjahæsti leikmaður Íslands, Katrín Jónsdóttir sem í dag er fyrirliði kvennalandsliðsins, kom inn á sem varamaður í þessum leik og lék þar með sinn þriðja A landsleik. Daginn áður en þessi leikur fór fram fagnaði landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir fjögurra ára afmæli sínu en nýliðinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir var þá nýorðin tveggja ára.
Fjallkonan Sara Björk
Landsliðshópurinn kemur saman miðvikudaginn 18. júní til æfinga en ýmislegt taka landsliðskonurnar sér fyrir hendur þangað til. Til dæmis mun Sara Björk Gunnarsdóttir fara með hlutverk fjallkonunnar í hátíðarhöldum Hafnarfjarðar í tilefni af þjóðhátíðardeginum á morgun. Án efa mun Sara Björk skila þessu hlutverki af sömu festu og ákveðni og hún gerir á knattspyrnuvellinum.