Ísland - Slóvenía laugardaginn 21. júní
Ísland tekur á móti Slóveníu í undankeppni EM kvenna 2009, laugardaginn 21. júní kl. 14:00. Íslensku stelpurnar eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni EM í Finnlandi 2009 og yrði það í fyrsta skipti sem A landslið Íslands í knattspyrnu tæki þátt í úrslitakeppni stórmóts.
Til þess að halda draumnum lifandi þurfa stelpurnar stuðning þjóðarinnar og eru landsmenn hvattir til þess að tryggja sér miða á Laugardalsvöllinn 21. júní næstkomandi og styðja stelpurnar sem aldrei fyrr.
Ísland er sem stendur í öðru sæti riðilsins, sex stigum á eftir efsta liðinu Frökkum en á 2 leiki til góða. Í þriðja sætinu koma svo Slóvenar sem með sigri á Laugardalsvellinum fara upp fyrir Íslendinga í annað sæti. Það má því búast við hörkuleik þar sem bæði lið munu leika til sigurs. Slóvenar unnu fyrri leik þessara þjóða í riðlinum, 2-1 og eru það einu stigin er íslenska liðið hefur tapað í undankeppninni til þessa.
Efsta þjóð riðilsins tryggir sér sæti í úrslitakeppninni í Finnlandi, sem fram fer dagana 23. ágúst - 10. september 2009, en liðið sem hafnar í öðru sæti þarf að leika umspilsleiki um sæti í úrslitakeppninni.
Miðasala hefst í dag á midi.is og kostar miðinn 1000 krónur fyrir fullorðna en frítt er fyrir börn 16 ára og yngri.
Tryggið ykkur miða í tíma!