Ísland - Noregur í kvöld
Í kvöld fer fram á Vodafonevellinum vináttulandsleikur hjá U21 karlalandsliðum Íslands og Noregs. Leikurinn hefst kl. 19:15 og er aðgangur ókeypis.
Luka Kostic hefur tilkynnt byrjunarliðið í leiknum í kvöld.
Byrjunarliðið: (4-3-3)
Markvörður: Atli Jónasson
Hægri bakvörður: Arnór Sveinn Aðalsteinsson
Vinstri bakvörður: Hjörtur Logi Valgarðsson
Miðverðir: Heimir Einarsson og Hólmar Örn Eyjólfsson
Tengiliðir: Heiðar Geir Júlíusson, Hallgrímur Jónasson, fyrirliði og Matthías Vilhjálmsson
Sóknarmenn: Birkir Bjarnason, Guðjón Baldvinsson og Jóhann Berg Guðmundsson
Þessi vináttulandsleikur er undirbúningur fyrir lokaleiki Íslands í riðli sínum fyrir undankeppni EM 2009 en Ísland leikur gegn Austurríki og Slóvakíu í september. Áður en að þeim leik kemur mun íslenska liðið leika vináttulandsleik gegn Danmörku, hér á landi, 20. ágúst næstkomandi.
Ísland og Noregur hafa mæst fjórum sinnum í landsleik hjá U21 karla. Ísland hefur unnið tvisvar sinnum, einu sinni hefur orðið jafntefli og Norðmenn hafa sigrað einu sinni. Síðast áttust þessar þjóðir við í Keflavík árið 1997 og sigruðu Íslendingar þann leik með tveimur mörkum gegn engu með mörkum frá Heiðari Helgusyni og Jóhanni B. Guðmundssyni.
Norðmönnum hefur gengið nokkuð vel í riðli sínum í undankeppninni fyrir EM 2009 og eru þar í öðru sæti á eftir Hollendingum með jafn mörg stig og Sviss en eiga einn leik til góða á þá.
Dómari leiksins í kvöld kemur frá Færeyjum og heitir Petur Reinert. Honum til aðstoðar verða landar hans, Jens Albert Simonsen og Regin Egholm.
Fólk er hvatt til þess að mæta á hinn nýja Vodafonevöll í góða veðrinu til þess að sjá og hvetja framtíðarlandsliðsmenn Íslands í hörkuleik.