Sparkvallaverkefni ÍF og KSÍ 2008
Sparkvallaverkefni ÍF og KSÍ hófst árið 2007 og ákveðið hefur verið að halda verkefninu áfram og standa fyrir þremur æfingum í júní 2008. Tilgangur þessa verkefnis er að auka áhuga og þátttöku fatlaðra karla og kvenna í knattspyrnu.
Opnar æfingar verða á sparkvellinum við Laugarnesskóla sunnudaginn 15. júní, sunnudaginn 22. júní og laugardaginn 28.júní en æfingarnar eru settar á í tengslum við landsleiki íslenska kvennalandsliðsins.
Æfingar verða frá kl. 10.00 til 12.00. Leiðbeinendur verða: Marta Ólafsdóttir og María Ólafsdóttir, íþróttakennarar.
Einnig munu landsliðskonur mæta á æfingarnar.
Allir þátttakendur á æfingunni 15. júní fá 2 miða á landsleik Íslands gegn Slóveníu og þátttakendur á æfingunni 22.júní, fá 2 miða á landsleik Íslands og Grikklands. Einnig fá þátttakendur peysu meðan birgðir endast sem þeir verða í á landsleiknum.
Allir geta verið með, byrjendur sem lengra komnir, stelpur og strákar.