Umsókn CSKA Sofia um þátttökuleyfi synjað
CSKA Sofia er sigursælasta félag í sögu búlgarskrar knattspyrnu. Umsókn félagsins um þátttökuleyfi fyrir keppnistímabilið 2008-2009 var synjað af leyfisráði búlgarska knattspyrnusambandsins.
Þetta þýðir að CSKA, sem nýverið fagnaði Búlgaríumeistaratitlinum og á að auki 60 ára afmæli á árinu, fær ekki að taka þátt í UEFA-mótum á keppnistímabilinu og getur ekki leikið í efstu deild í Búlgaríu á næsta keppnistímabili. Svo gæti jafnvel farið að félagið þurfi að hefja keppni að nýju utan deilda, í áhugamannadeild landsins, þar sem leyfiskerfið í Búlgaríu nær til fjögurra efstu deildanna í landinu.
Ástæður fyrir þessari synjun á umsókn CSKA um þátttökuleyfi er sú að félagið hefur m.a. ekki getað sýnt fram á að engin vanskil séu gagnvart opinberum aðilum og skattyfirvöldum. Greiðslur sem inna átti af hendi eru gjaldfallnar og ekki náðst samkomulag við lánardrottna.
Leyfiskerfið í Búlgaríu er byggt upp á svipaðan hátt og leyfiskerfi KSÍ og í grundvallaratriðum er eini munurinn sá að kerfið þar í landi nær til allra fjögurra deildanna, en hér á landi til tveggja efstu deilda karla.
Félögin sækja um þátttökuleyfi í viðkomandi deild og eru þá jafnframt að sækja um þátttökuleyfi í mótum á vegum UEFA, þ.e. Meistaradeildinni og UEFA-bikarnum, ef þau vinna sér rétt til að leika í þeim mótum. Fái félag ekki þátttökuleyfi deild gildir það einnig um Evrópumótin.
Uppfylli t.d. félag í Landsbankadeild ekki kröfurnar fyrir þá deild getur það ekki tekið þátt í UEFA mótum og þarf að leika í 1. deild. Ef félagið uppfyllir ekki heldur kröfur 1. deildar þarf það að leika í 2. deild, þar sem leyfiskerfið nær ekki til þeirrar deildar. Ástæður synjunar gætu t.d. verið þær að félagið er í vanskilum, eða þá að ársreikningur félagsins sé ekki með fulla áritun endurskoðanda. Þessar tvær ástæður eru þær algengustu fyrir synjun þátttökuleyfa í aðildarlöndum UEFA á síðustu árum.