Eins marks tap gegn Wales
Íslendingar töpuðu gegn Wales í vináttulandsleik sem fram fór á Laugardalsvellinum í kvöld. Lokatölur urðu 0-1 gestunum í vil og kom sigurmarkið í lok fyrri hálfleiks. Arnór Smárason spilaði sinn fyrsta A landsleik í kvöld.
Fyrri hálfleikur fór rólega af stað og bæði lið spiluðu varfærnislega. Besta færi Íslendinga í fyrri hálfleiknum kom á 12. mínútu þegar að Stefán Þórðarson lagði boltann á Pálma Rafn Pálmason en markvörður Wales varði skot hans vel.
Íslenska liðið var beittara í sóknaraðgerðum sínum í fyrri hálfleiknum en gestirnir komu betur inn í leikinn þegar að leik á hálfleikinn og á síðustu mínútu fyrri hálfleiks komust gestirnir yfir. Chad Evans skoraði þá eftir laglega sókn en hann hafði komið inn á sem varamaður fimm mínútum áður. Staðan því 0-1 þegar Adrian McCourt, dómari leiksins frá Norður Írlandi, flautaði til hálfleiks.
Seinni hálfleikur var frekar tíðindalítill og fá marktækifæri litu dagsins ljós. Íslendingum gekk illa að brjóta niður þéttan varnarmúr Wales og sköpuðu sér þar af leiðandi lítið af færum. Að sama skapi gaf íslenska vörnin lítil færi á sér.
Bæði lið skiptu mörgum leikmönnum inn á eins og venja er í vináttulandsleikjum og þegar flautað var til leiksloka var ljóst að gestirnir höfðu innbyrt eins marks sigur. Arnór Smárason spilaði sinn fyrsta A landsleik í kvöld og var honum afhent nýliðamerkið að leik loknum.
Með því að smella á tenglana hér að neðan má sjá myndir frá leiknum í kvöld.