• þri. 20. maí 2008
  • Landslið

Landsliðshóparnir tilkynntir

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

Á morgun, miðvikudaginn 21. maí kl. 11:30 munu þeir Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari karla og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna, tilkynna landsliðshópa sína er verða í eldlínunni 28. maí næstkomandi.

Landslið karla mun leika vináttulandsleik á Laugardalsvelli við Wales og hefst sá leikur kl. 19:35.  Ísland og Wales hafa leikið 5 A landsleiki karla til þessa og hafa Íslendingar farið einu sinni með sigri af hólmi.  Það var árið 1984 í undankeppni fyrir HM 1986 og lögðu þá Íslendingar Wales, 1-0, með marki Magnúsar Bergs. 

Einu sinni hafa liðin skilið jöfn en það var árið 1981 þegar að Ásgeir Sigurvinsson skoraði tvö glæsileg mörk í 2-2 jafntefli á Vetch Field.  Wales hefur aftur á móti sigrað þrisvar sinnum, síðast 1-0 í vináttulandsleik sem leikinn var í Wales árið 1991.  Miðasala á leikinn er þegar hafin og fer fram í gegnum miðasölukerfi frá miði.is.

Landslið kvenna mun leika í Serbíu, miðvikudaginn 28. maí í undankeppni fyrir EM 2009.  Þar er íslenska liðið í harðri baráttu um að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni sem haldin verður í Finnlandi.  Eini landsleikur kvenna á milli Íslands og Serbíu til þessa var leikinn á Laugardalsvelli 21. júní á síðasta ári.  Þar sáu 5.976 áhorfendur íslenska liðið leggja það serbneska með fimm mörkum gegn engu.  Þetta er mesti fjöldi sem séð hefur landsleik kvenna hér á landi. 

Íslenska liðið hefur 9 stig eftir fjóra leiki en Frakkar eru á toppnum með 18 stig eftir sjö leiki.  Efsta lið riðilsins tryggir sér sæti í úrslitakeppni EM 2009 sem haldin verður í Finnlandi.  Annað sæti í riðlunum tryggir sæti í umspili ásamt þeim fjórum þjóðum er bestan árangur hafa í þriðja sæti í riðlunum sex.  Tólf þjóðir munu leika í úrslitakeppninni í Finnlandi að þessu sinni. 

Landsleikur Íslands og Serbíu verður í beinni útsendingu hjá RUV og hefst leikurinn kl. 15:00.  Landsleikur Íslands og Wales verður í beinni útsendingu einnig á  RUV og hefst leikurinn kl. 19:35.