Landsdómarar funduðu um helgina
Um síðustu helgi var haldin hin árlega Landsdómararáðstefna og voru það 45 dómarar sem mættu til ráðstefnunnar. Hún fór fram í höfuðstöðvum KSÍ og á Hótel Örk og er lokahnykkurinn í undirbúningi landsdómara fyrir komandi keppnistímabil.
Farið var yfir áherslur sumarsins ásamt öðrum þeim atriðum er tengjast starfi knattspyrnudómara. Að venju var erlendur fyrirlesari á ráðstefnunni og að þessu sinni var það Jörn West Larsen, yfirmaður dómaramála í Danmörku.
Dómararnir gengust undir skriflegt próf á ráðstefnunni en síðustu vikur hafa þeir einnig gengist undir þrekpróf. Dómararnir hafa verið í æfingum undir stjórn Egils Eiðssonar, frjálsíþróttaþjálfara, síðan í byrjun nóvember og hafa þessar æfingar skilað miklum og góðum árangri.