• sun. 27. apr. 2008
  • Landslið

Frábær byrjun hjá U19 karla í Noregi

Byrjunarlið Íslands U19 karla fyrir leikinn gegn Noregi í milliriðli fyrir EM 2008
Byrjunarlid_Noregur_april_2008

Íslenska U19 karlalandsliðið byrjaði frábærlega í milliriðli fyrir EM 2008 en riðillinn er leikinn í Noregi.  Fyrsti leikurinn fór fram í dag og voru Norðmenn mótherjarnir að þessu sinni.  Íslenska liðið gerði sér lítið fyrir og lagði heimamenn með þremur mörkum gegn tveimur.  Staðan í hálfleik var 2-1 Íslendingum í vil.

Þetta er frábær byrjun hjá strákunum en heimamenn þóttu, fyrir keppnina, sigurstranglegir í riðlinum en efsta þjóðin tryggir sér sæti í úrslitakeppninni sem fer fram í júlí.  Gylfi Þór Sigurðsson kom Íslendingum yfir á 24. mínútu en Norðmenn jöfnuðu á 42. mínútu.  Guðmundur Reynir Gunnarsson kom Íslendingum yfir aðeins mínútu síðar og staðan þannig er flautað var til hálfleiks.

Í seinni hálfleik bætti hvort liðið við einu marki og var Guðmundur Reynir aftur á ferðinni fyrir Íslendinga.  Kom hann Íslendingum í 3-1 á 64. mínútu en Norðmenn minnkuðu muninn á 69. mínútu.  Baráttan var svo mikil síðustu 20 mínúturnar og strákarnir fögnuðu fræknum sigri vel í leikslok.  Þeir verða aftur á ferðinni á þriðjudaginn þegar leikið verður gegn Ísrael.  Í hinum leik dagsins í riðlinum léku Búlgaría og Ísrael og sigruðu Búlgarar með einu marki gegn engu.

Hægt er að sjá upptöku af leiknum með því að smella hér.