• þri. 08. apr. 2008
  • Pistlar

Pistill formanns: Aukin gagnvirkni á vef KSÍ

Geir Þorsteinsson
Geir_Torsteinsson_1

Vefur KSÍ hefur fest sig í sessi sem einn af vinsælustu og fjölsóttustu vefjum landsins. Notkunarmögu-leikar verða sífellt fleiri og stöðugt er unnið að endurbótum til að bregðast enn betur við upplýsinga-leit notenda. Eins og gefur að skilja er umferð um vefinn þyngst yfir sumartímann og fara heimsóknir þá vel á annað hundrað þúsund í hverjum mánuði.

Á ksi.is er að finna gríðarlega mikið af upplýsingum um alla meginþætti í starfsemi KSÍ, öll mót á vegum KSÍ, KRR-mót, Faxaflóamót, félagaskipti, leikmannasamninga, alla landsleiki og landsliðsmenn frá upphafi, öll eyðublöð, lög og reglugerðir, upplýsingar um leyfiskerfið, fræðslumál og margt fleira. Allar upplýsingar sem skráðar eru í mótakerfi KSÍ uppfærast sjálfkrafa á vefnum og er áhugasömum þannig gert kleift að fylgjast grannt með öllu sem gerist. 

Á þessu ári verða gerðar nokkrar breytingar og settar í gang nýjungar til að mæta auknum kröfum notenda vefsins.  Til þessa hefur ksi.is fyrst og fremst verið upplýsingavefur, en með þessum breytingum og nýjungum verður gagnvirkni vefsins aukin til muna.

  1. Til stendur að taka í notkun nýjan myndavef í stað þess gamla, sem mun veita knattspyrnuháhugafólki auðveldari aðgang að myndasafni KSÍ, sem telur tugþúsundir mynda frá ýmsum skeiðum íslenskrar knattspyrnusögu. 
  2. Nú þegar er hægt að skoða alla landsleiki Íslands frá upphafi á vefnum, í öllum aldursflokkum, og unnið er að því að færa úrslit allra leikja í mótum meistaraflokka í mótakerfið, þannig að hægt verði að skoða úrslit og stöðutöflur aftur í tímann á vefnum. Lokið hefur verið skráningu á öllum leikskýrslum í öllum landsliðum kvenna frá upphafi og stefnt er að því að ljúka sömu vinnu fyrir karlalandsliðin fyrir árslok.
  3. Tekinn verður í notkun myndbandavefur þar sem stefnt er að því að birta ýmis myndbönd, s.s. fræðsluefni, æfingar, viðtöl, myndbrot úr leikjum landsliða, blaðamannafundi og fleira fróðlegt og áhugavert efni.
  4. Loks hefur þetta pistlakerfi sem þú, notandi góður, ert að skoða núna verið tekið í notkun.  Hér verða reglulega birtir pistlar og greinargerðir af ýmsu tagi frá KSÍ og öðrum aðilum innan knattspyrnuhreyfingarinnar og verður farið um víðan völl í efnistökum.

KSÍ leggur mikla áherslu á að gera ksi.is að öflugu þjónustutæki og víðtækum upplýsingabanka.  Nú hefur skrefið verið tekið í áttina að aukinni gagnvirkni og er það von mín að með þessum nýjungum nýtist vefurinn knattspyrnuáhugafólki enn betur við upplýsingaleit og afþreyingu.

Með knattspyrnukveðju,

Geir Þorsteinsson

formaður KSÍ