• fös. 28. mar. 2008
  • Fræðsla

Viðtal við Rúnar Kristinsson

Rúnar Kristinsson í sínum síðasta landsleik gegn Ítölum á Laugardalsvelli 2004
Runar_Kristinsson_2004

Rúnar Kristinsson er leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Hann lék 104 A-landsleiki á ferlinum, skoraði í þeim þrjú mörk og bar fyrirliðabandið í ellefu leikjum. Rúnar lék einnig 39 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands. Rúnar lék einnig sem atvinnumaður í tólf ár með Örgryte, Lilleström og Lokeren. Hann kom til Íslands síðasta sumar og endaði feril sinn með KR en Rúnar hefur síður en svo sagt bless við knattspyrnuna og starfar nú hjá vesturbæjarliðinu.

Nafn: Rúnar Kristinsson

Aldur: 38 ára

Starf: Yfirmaður knattspyrnumála hjá KR

1. Í hverju felst þitt starf hjá KR? Starfi mínu sem yfirmaður knattspyrnumála hjá KR má í raun skipta upp í tvo hluta. Annars vegar meistaraflokka og 2.fl. félagsins þar sem afreksstefnan er ríkjandi. Þar þarf ég að sjá um samningamál leikmanna, fylgjast með okkar leikmönnum og skoða áhugaverða leikmenn sem gætu nýst okkur. Einnig sé ég um séræfingar, þar sem hægt er að gefa sér góðan tíma í að vinna með einstaklinginn. Svo er það  yngri flokka starfið, þar sem við þurfum að hlúa jafnt að öllum einstaklingum í félaginu, hvort sem þeir séu í þessu til að verða atvinnumenn framtíðarinnar eða góðir og gildir félagsmenn sem vilja „bara“ vera með. Þar munum við leitast við að spila sama leikkerfið í 11 manna boltanum í öllum flokkum og reyna þannig að móta leikmenn framtíðarinnar hjá KR, hvort heldur sem er í karla eða kvennaflokki.

Þannig hef ég yfirumsjón með öllum faglegum þáttum knattspyrnunnar í KR.

2. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að fara út í þetta starf? Þegar mér var boðið þetta starf kom aldrei neitt annað til greina hjá mér en að taka það. KR-ingar stefna alltaf hátt og það er mikill metnaður í félaginu og miklir framtíðarmöguleikar til að bæta bæði aðstöðu og árangurinn í KR. Ég tel mig getað miðlað þeirri miklu reynslu sem mér hefur hlotnast á þeim rúmum 12 árum sem ég var atvinnumaður og því er þetta kjörið tækfæri til þess.  

3. Nú er KR með knattspyrnuakademíu. Hver er hugsunin á bak við hana og hvernig er hún uppbyggð? KR Akademían miðar að þvi að hlúa vel  að efnilegustu leikmönnum okkar og veita þeim bestu mögulegu aðstöðu. Hún hefur það einnig að markmiði að fjölga uppöldum KR-ingum í mfl. félagsins. Efnilegir leikmenn fá fleiri séræfingar, þar sem lögð er áhersla á hugarfar, tækni og leikskilning. Þannig reynum við að vinna mikið með einstaklinginn út frá leikstöðu hans innan liðsins. Eftir fyrsta veturinn höfum við þróað Akademíuna frekar og erum núna að vinna í ýmsum málum tengdum henni. 

4. Hvað gerir KR í að reyna að fá fleiri krakka til að æfa fótbolta? Okkar vandamál er aðstaðan í vesturbænum. KR er fyrir löngu búið að sprengja utan af sér alla aðstöðu og við getum ekki sinnt krökkunum eins vel og við viljum. En það eru uppi stórar hugmyndir hjá KR um breytingar á svæðinu sem munu koma sér vel fyrir allan vesturbæinn. Í kjölfarið munum við auka mikið samstarfið við skólana og vonumst til að yngstu krakkarnir geti sinnt sínum íþróttum á skólatíma í skólunum. Staðreyndin er sú að krakkar sem búa utan við næsta nágrenni  KR svæðisins stunda mjög sjaldan íþróttir hjá okkur. Til að mynda eru örfáir krakkar norðan Hringbrautar og í Skerjafirði sem stunda íþróttir í KR. Við viljum að sjálfsögðu koma til móts við þennan hóp og erum núna að vinna í því að bæta aðstöðu úti í hverfunum. Það er vel þekkt erlendis að yngstu börnin æfa nálægt heimilum sínum og þannig fara ungir krakkar að æfa íþróttir sem annars hefðu ekki gert það. Það er því markmið KR að færa æfingar yngstu hópana til þeirra.

5. Hvernig metur þú árangur í því starfi sem þú sinnir hjá KR? Auðveldasta leiðin er að telja bikara og medalíur. Önnur leið er að skoða hversu margir uppaldir KR-ingar eru að skila sér upp í meistaraflokka félagsins sem topp knattspyrnumenn. Mikilvægast er hins vegar að þeir sem stunda íþróttir í KR eigi möguleika á því að vera með í uppbyggilegu og ánægjulegu félagsstarfi sem skilar góðu fólki af sér.

6. Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér hjá KR? Verða meistaraflokkar félagsins eingöngu skipaður uppöldum KR-ingum í náinni framtíð? Við stefnun á það að meistaraflokkar félagsins verði byggðir að mestu leyti upp á uppöldum KR ingum, það er og verður stefna okkar hjá KR. Það eru mjög spennandi  tímar framundan í KR, og ef hugmyndir að nýju skipulagi á svæðinu okkar ná í gegn verður auðveldara að vinna að okkar markmiðum. Til þess að stilla upp sem bestu liði þurfum við væntanlega að sækja leikmenn annað. En hugmyndir okkar ganga út á að fækka þeim og fjölga uppöldum KR ingum.

7. Hverjar eru helstu breytingarnar sem átt hefur sér stað í knattspyrnunni hér á landi á síðustu árum, eða frá því þú varst í yngri flokkum? Frá því að ég var í yngri flokkum hefur mikið breyst. Aðstaða félaganna hefur batnað til muna. Mörg félög eru komin með gervigrasvelli og svo hafa sprottið upp yfirbyggð knattspyrnuhús. Þetta gerir það að verkum að hægt hefur verið að æfa við góðar aðstæður allt árið um kring. Það er hins vegar athyglisvert að KR er að dragast aftur úr. Ef við berum okkur saman við hin félögin í Reykjavík og síðan nágranna sveitafélögin þá er ljóst að KR, á síðustu árum, hefur dregist mikið aftur úr.

8. Nú átt þú langan og gæfuríkan feril að baki, bæði með landsliði Íslands og sem atvinnumaður í Evrópu. Ertu með einhver góð ráð handa krökkum sem dreymir um frægð og frama á knattspyrnuvellinum? Til að láta drauma sína rætast þarf maður að æfa mikið. Ekki bara með liði sínu heldur líka utan æfingatíma þar sem það er ekki síður mikilvægt að leika sér sjálfur með boltann. Agi er ekki síður mikilvægur, það að mæta alltaf á æfingar, mæta á réttum tíma og að virða og fara eftir því sem þjálfarinn segir skiptir líka miklu máli.

9. Ertu með góð ráð handa þjálfurum um hvernig hlúa eigi að efnilegu knattspyrnufólki? Allir þeir sem stunda knattspyrnu eða íþróttir almennt þurfa reglulega á hrósi að halda. Það held ég að sé eitt af því mikilvægasta í starfi þjálfarans. Það að þjálfarinn gefi hrós, veitir iðkendanum þá tilfinningu að eftir honum er tekið og við það viðhelst áhuginn og metnaðurinn.