• mið. 26. mar. 2008
  • Fræðsla

Viðtal við Hlyn Birgisson

Hlynur Birgisson
Hlynur_Birgisson

Þórsarinn Hlynur Birgisson hefur lengi lifað og hrærst í knattspyrnunni. Hann á að baki 12 landsleiki með A-landsliði Íslands, lék sem atvinnumaður í Svíþjóð og er enn að spila, nú með 1. deildarliði Þórs, fertugur maðurinn. Hlynur er með KSÍ B þjálfaragráðu og þjálfar 5. - 6. og 7. flokk kvenna hjá Þór, samhliða því að spila af fullum krafti með meistaraflokki félagsins.

Mikill uppgangur hefur átt sér stað í knattspyrnu kvenna hjá Þór undanfarin ár. Til að mynda vakti árangur 5. flokksins á síðasta ári athygli, þar sem liðið varð Íslandsmeistari, en Hlynur þjálfar þann flokk ásamt Jóni Stefáni Jónssyni. KSÍ hafði samband við Hlyn og spurði um eitt og annað er við kemur hans starfi.

Nafn: Hlynur Birgisson

Aldur: 40 ára

Starf: Nemi í Háskólanum á Akureyri og þjálfari hjá Þór

  1. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að snúa þér að þjálfun? Áhuginn kom seint hjá mér, kannski ekki fyrr en mín börn byrjuðu að æfa. Fékk strax bakteríuna og sótti mér menntun hjá  KSÍ. Á auðvelt með að vinna með börnum og finnst gaman að fá að móta þau. Tel mig líka búa yfir reynslu sem mér finnst nauðsynlegt að koma frá mér.
  1. Hvað gefur þjálfun þér? Hún gefur mér mikið, samneyti við svona hressa krakka heldur manni ungum. Stúdering á knattspyrnufræðum og sjá síðan  framfarir og árangur er mikils virði.
  1. Hvað eru margar stelpur að æfa í þeim flokkum sem þú þjálfar? Í 5. flokknum eru um 30 stelpur, en í 7. og 6. flokk eru færri, um 20 stelpur samtals. Það er mikil barátta um hvern haus hjá þessum yngri, sérstaklega á veturna. Þeim fjölgar mikið á sumrin, en á veturna eru það skíðin, fimleikar og skautar sem toga í þær líka.
  1. Hvað gerir Þór í að reyna að fá fleiri stelpur til að æfa fótbolta? Við förum í skólanna og kynnum fótboltann, það hefur reynst vel, höfum vinadaga og reynum að hafa skemmtilega viðburði reglulega. Leyfum nýjum iðkendum að æfa frítt meðan þau prófa.
  1. Hvert er markmið þitt sem þjálfari í yngri flokkum? Ég er keppnismaður og það er afreksstefna hjá Þór þannig að það segir margt, en vissulega er aðalatriðið að kenna krökkunum undirstöðuatriðin. Það er mikið metaðarmál hjá okkur að okkar lið séu vel spilandi. Markmiðið er að sjá að krakkarnir taki framförum og hafi metnað til að ná lengra.
  1. Mikill uppgangur hefur átt sér stað í kvennaboltanum hjá Þór. Hvað veldur því að þínu mati? Búið að vera markviss þjálfun í nokkur ár hjá okkur núna, mikill metnaður hjá félaginu hvað varðar kvennaboltann og við Þórsarar leggjum mikinn metnað í að þjálfarar séu menntaðir sem slíkir.
  1. Rakel Hönnudóttir, leikmaður Þórs, hefur verið í og við A-landslið kvenna undanfarin misseri. Skiptir það máli fyrir stelpurnar í yngri flokkum Þórs að hafa sterkar fyrirmyndir í meistaraflokki félagsins? Það skiptir miklu máli að hafa Rakel Hönnudóttir hjá okkur, hún hefur líka sýnt félaginu mikla hollustu, auk þess sem hún er frábær persónuleiki. Að hafa góðar fyrirmyndir er stórhluti.  Rakel er mér til aðstoðar í 6. og 7. flokk og hefur verið að sækja sér menntun hjá KSÍ, og ætlar sér vonandi stóra hluti í þjálfun hjá félaginu á næstu misserum.
  1. Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér í knattspyrnu kvenna hjá Þór? Ég sé bjarta framtíð hjá félaginu, eru með gríðarlegan efnivið í yngri flokkunum. Jón Stefán Jónson er að gera frábæra hluti með 4. og 3. flokk kvenna, meistaraflokkurinn er nánast allur á 2. flokks aldrinum og með smá þolinmæði þá eignumst við sterkt meistaraflokkslið á næstu árum, sem er stefna félagsins. Höfum átt margar stelpur núna í yngri landsliðunum sem er mikil viðurkenning á starfinu og ýtir enn frekar undir að gera betur. Einnig er mjög öflugt kvennaráð sem starfar í kringum meistaraflokkinn og 2. flokk og passar upp á að allt sé í fullkomnu lagi.
  1. Ertu með einhver góð ráð fyrir yngriflokka þjálfara? Sækja sér þá menntun sem er í boði og sýna þessu áhuga. Þarf að vera góður kennari. Einnig tel ég mikilvægt að getuskipta hópunum í yngstu flokkunum þannig að allir fái að njóta sín.