• mið. 26. mar. 2008
  • Landslið

Sætur sigur á Slóvökum

Gunnar Heiðar Þorvaldsson í landsleik gegn Króötum
Island-Kroatia2005-0158

Íslendingar unnu góðan sigur á Slóvökum í vináttulandsleik í kvöld en leikið var í Zlaté Moravce.  Lokatölur urðu 1-2 Íslendingum í vil eftir að staðan var markalaus í hálfleik.  Þeir Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Eiður Smári Guðjohnsen skoruðu mörk íslenska liðsins

Heimamenn sóttu töluvert meira í fyrri hálfleik eins og búist hafði verið við.  Íslenska liðið lék aftarlega, þéttan varnaleik og áttu svör við flestu því er Slóvakar buðu upp á.  Tvisvar svaf vörnin þó á verðinum og upp úr því komu tvö góð færi en í bæði skiptin hafnaði boltinn í tréverki íslenska marksins.  Leikmenn Slóvakíu skutu töluvert á mark Íslendinga af löngu færi en Kjartan Sturluson, sem átti mjög góðan leik í kvöld, var ætíð vel á verði.

Staðan því markalaus þegar gengið var til hálfleiks og þegar leikmenn gengu, töluvert langa leið, út úr búningsherbergjunum til síðari hálfleiks, tók á móti þeim snjókoma og kalsaveður.  Ekki var þó að örvænta fyrir varamenn, þjálfara og aðstoðarmenn enda búningastjórinn öllu vanur og vel búinn. 

Leikmenn virtust einnig kunna betur við sig og var íslenska liðið öllu sókndjarfara í seinni hálfleiknum og héldu boltanum betur innan liðsins.  Heimamenn fengu þó gott færi fljótlega í seinni hálfleiknum en Íslendingar hreinsuðu á síðustu stundu.

Vörnin stóð sem fyrr fyrir sínu og Kjartan var traustur þar fyrir aftan.  Eftir um 13 mínútna leik varð Kjartan virkilega vel skot frá Slóvökum en um þremur mínútum síðar kom fyrsta mark leiksins.  Bjarni Ólafur Eiríksson átti þá góða fyrirgjöf af vinstri kanti og þar var Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem að skoraði með frábæru viðstöðulausu skoti.  Glæsilegt mark hjá Gunnari en hann kom inn á sem varamaður aðeins sjö mínútum áður. 

Eiður Smári átti svo mjög gott skot úr aukaspyrnu stuttu síðar en markvörður heimamanna varði glæsilega.  En sjö mínútum síðar, á 82. mínútu, bætti Eiður Smári við öðru marki Íslendinga.  Eftir hornspyrnu skallaði Atli Sveinn Þórarinsson boltann að markinu og Eiður Smári setti boltann í markið, hans 20. landsliðsmark og kom það í hans 50. landsleik.

Heimamenn voru slegnir töluvert út af laginu á þessum tíma en þeir gáfust þó ekki upp og á 87. mínútu minnkuðu þeir muninn með góðu skoti frá vítateig.  Síðustu mínúturnar freistuðu Íslendingar þess að halda fengnum hlut sem og tókst.

Virkilega góður sigur íslenska liðsins og góð afmælisgjöf til handa Knattspyrnusambandinu sem varð 61. árs í dag.  Karlalandsliðið hefur nú unnið þrjá leiki í röð undir stjórn Ólafs Jóhannessonar.  Næsti leikur liðsins er vináttulandsleikur við Wales sem fram fer á Laugardalsvelli 28. maí næstkomandi.