Færeyingar lagðir í Kórnum
Íslendingar lögðu Færeyinga í dag í vináttulandsleik en leikurinn fór fram í knatthúsinu Kórnum. Lokatölur urðu 3-0 eftir að Íslendingar höfðu haft forystu í hálfleik, 1-0. Þetta er fyrsti karlalandsleikur sem fram fer innanhúss á Íslandi
Leikurinn fór rólega af stað og fá marktækifæri litu dagsins ljós í fyrri hálfleik. Besta marktækifæri hálfleiksins áttu Færeyingar á 23. mínútu þegar Arnbjorn Hansen, leikmaður EB/Streymur, komst einn innfyrir en Kjartan Sturluson varði virkilega vel. Færeyingar lágu aftarlega en ógnuðu með snörpum skyndsóknum. Íslendingum gekk illa að skapa sér opin marktækifæri en Helgi Sigurðsson var hársbreidd frá því að ná til boltans eftir fyrirgjöf Baldurs Aðalsteinssonar á 35. mínútu.
Íslendingar brutu ísinn á lokamínútu hálfleiksins þegar Jónas Guðni Sævarsson skoraði fallegt mark. Hinn 18 ára Aron Einar Gunnarsson sendi þá boltann út á kant á Baldur Aðalsteinsson sem sendi boltan fyrir markið. Þar kom Jónas Guðni á ferðinni og skallaði boltann glæsilega í nærhornið. Örskömmu síðar flautaði norski dómarinn til leikhlés.
Íslendingar voru töluvert sterkari aðilinn í síðari hálfleik en færin létu þó á sér standa. Markvörður Færeyinga varði þó glæsilega skalla frá Aroni Einari á 63. mínútu. Marel Baldvínsson komst svo í gott færi á 69. mínútu en markvörður Færeyinga varði vel á nærstöng. Þremur mínútum síðar eiga Íslendingar góða sókn. Tryggvi Guðmundsson fær boltann á vinstri kanti og gefur góða fyrirgjöf fyrir markið þar sem einn færeysku leikmannana setur boltann í eigið mark.
Tryggvi var svo aftur á ferðinni á 80. mínútu þegar hann skoraði með góðu hægri fótar skoti eftir skemmtilega hælsendingu frá Pálma Pálmasyni. Sigurinn var þarna í höfn og fátt markvert gerðist sem eftir var leiks nema að Rógvi Jacobsen fékk að líta sitt annað gula spjald á 87. mínútu og varð því að yfirgefa völlinn.
Góður sigur á frændum okkar Færeyingum í höfn í þessum fyrsta A - landsleik karla sem leikinn er innandyra. Fimm leikmenn léku sinn fyrsta landsleik í dag, Heimir Einarsson, Guðmann Þórisson, Hallgrímur Jónasson, Guðmundur Reynir Gunnarsson og Hjörtur Logi Valgarðsson. Jónas Guðni Sævarsson skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í þessum leik.