• fös. 14. mar. 2008
  • Landslið

Viðureignir Íslands og Færeyja

Merki Færeyska knattspyrnusambandsins
Fareyjar_logo

Leikur Íslendinga og Færeyinga á sunnudaginn er sá 21. í röðinni í A-landsleik karla.  Íslendingar hafa unnið nítján leiki af þessum tuttugu en einu sinni hefur orðið jafntefli.

Ísland og Færeyjar mættust fyrst í vináttulandsleik 12. júlí árið 1972 og var leikið á Laugardalsvelli.  Íslendingar sigruðu í þeim leik með þremur mörkum gegn engu.  Mörk Íslands gerðu þeir Tómas Pálsson og Eyleifur Hafsteinsson og eitt mark var sjálfsmark.

Einu sinni hafa þjóðirnar gert jafntefli en vináttulandsleikur þjóðanna endaði með markalausu jafntefli árið 1985 þegar leikið var í Þórshöfn.  Markatala í leikjunum er 64-11 Íslandi í vil.

Færeyingar hafa sótt mjög í sig veðrið á undanförnum árum í knattspyrnunni og hafa Íslendingar unnið fimm síðustu leiki á milli þjóðanna með eins marks mun.  Síðast áttust þjóðirnar við á Laugardalsvelli árið 2003 og var sá leikur liður í undankeppni EM 2004.  Þeir Helgi Sigurðsson og Tryggvi Guðmundsson tryggðu þá Íslandi 2-1 sigur og koma sigurmark Tryggva á síðustu mínútu leiksins.

Árið 2003 er eina skiptið sem Ísland og Færeyjar hafa leikið gegn hvert öðru í undankeppni stórmóts.  Færeyingar tóku í fyrsta skiptið þátt í undankeppni fyrir EM 1992.  Þeir höfðu engan leikvang sem uppfyllti lágmarkskröfur fyrir leik af þessari stærðargráðu og léku því sinn fyrsta "heimaleik" gegn Austurríki í Landskrona í Svíþjóð árið 1990.  Enn er sungið um þennan leik enda fóru eyjarnar á annan endann þegar að Torkil Nielsen skoraði eina mark leiksins  í 1-0 sigri Færeyinga og einhver óvæntustu úrslit alþjóðaknattspyrnunnar staðreynd.  Torkil þessi varð þjóðhetja á einni nóttu en hann hefur einnig verið einn af albestu skákmönnum Færeyja í gegnum árin.  Markvörðurinn Jens Martin Knudsen vakti ekki síður athygli, bæði fyrir frábæra markvörslu og skemmtilegt höfuðfat.  Jens Martin lék svo síðar hér á landi með Leiftri og þjálfaði liðið um tíma. 

Landsliðsþjálfari Færeyinga á þessum tíma var Páll Guðlaugsson hefur þjálfað m.a. Leiftur og Keflavík hér á landi og mun þjálfa Leikni Fáskrúðsfirði á þessu tímabili.