• mið. 12. mar. 2008
  • Landslið

Glæsilegur sigur á Finnum

Byrjunarlið Íslands fyrir leikinn gegn Írlandi á Algarve Cup 2008
Algarve_2008_Irland

Kvennalandsliðið íslenska sigraði í dag stöllur sínar frá Finnlandi en leikurinn var um 7. sætið á Algarve Cup.  Lokatölur urðu 3-0 Íslandi í vil eftir að liðið hafði leitt með tveimur mörkum í hálfleik.  Katrín Jónsdóttir setti landsleikjamet þegar hún lék sinn 70. landsleik í dag.

Það var Margrét Lára Viðarsdóttir sem kom íslenska liðinu yfir með góðu langskoti á 12. mínútu og Rakel Hönnudóttir bætti við öðru marki á 41. mínútu.  Þetta er fyrsta markið hjá Rakel í A landsleik kvenna.  Á síðustu mínútu leiksins bætti svo Guðrún Sóley Gunnarsdóttir við þriðja marki Íslands og öruggur sigur staðreynd og þar með 7. sætið á mótinu.

Á Algarve Cup taka þátt mörg sterkustu landslið heimsins í kvennaknattspyrnu.  Mótið er styrkleikaskipt þannig að átta sterkustu þjóðirnar leika saman í A og B riðli.  Þjóðirnar í þessum riðlum eiga aðeins möguleika á því að sigra mótið.  Liðin í C riðli geta hinsvegar ekki endað hærra í í 7. sæti sem og íslensku stelpurnar gerðu með glæsibrag.

Margrét Lára Viðarsdóttir varð markakóngur mótsins, annað árið í röð, en hún skoraði sex mörk í leikjunum fjórum.

Hér að neðan má sjá textalýsingu sem birtist á heimasíðunni á meðan leik stóð.

Ísland - Finnland

Leikurinn byrjar með miklu fjöri og eiga bæði lið góð færi í fyrstu mínútum leiksins.  Guðbjörg ver vel þegar finnskur sóknarmaður er komin ein innfyrir.

1-0  Margrét Lára Viðarsdóttir hefur komið Íslandi yfir með fallegu marki með langskoti.  Íslenska liðið hefur sótt meira en finnska liðið ógnar líka.  Magrét Lára hefur því skorað í 8 landsleikjum í röð og 19 mörk í síðustu 15 landsleikjum.  Hún hefur gert 35 mörk í 39 A landsleikjum.

Fjörið heldur áfram og eru liðin hvött áfram af 400 skólabörnum sem setja skemmtilegan svip á leikinn.

Guðbjörg markvörður varði tvisvar sinnum vel eftir markið fyrst á 14. mínútu og svo á 19. mínútu.  Stuttu síðar átti Katrín Jónsdóttir skalla rétt yfir og fimm mínútum síðar átti hún skot naumlega framhjá.  Margrét Lára komst svo í gott færi á 27. mínútu en hitti boltann illa og markvörður Finna varði boltann.

2-0  Rakel Hönnudóttir skorar sitt fyrsta A landsliðsmark.  Ásta Árnadóttir tekur langt innkast með því að taka kraftstökk.  Boltinn berst til Rakelar sem kemur boltanum af harðfylgi í markið.  Markið kemur á 41. mínútu.  Þetta er fyrsta A landsliðsmarkið hjá Rakel og kemur það í hennar þriðja landsleik.

Leikurinn hefur verið í nokkru jafnvæg en íslenska liðið hefur verið hættulegra.  Bakverðir liðsins hafa verið duglegir að taka þátt í sóknarleiknum og sérstaklega hefur Ólína G. Viðarsdóttir verið öflug upp vinstri kantinn.

Dómari leiksins, sem kemur frá Suður Kóreu, hefur flautað til leikhlés.  Góður fyrri hálfleikur hjá íslenska liðinu og tveggja marka forysta staðreynd.

Fyrsta færi síðari hálfleiksins fellur í hlut Íslendinga þegar að Margrét Lára kemst í gegn á 51. mínútu en skot hennar fer naumlega framhjá.  Finnar hafa bætt í sóknarleikinn og hafa sótt mikið síðustu mínútur.  Vörn Íslands með Guðbjörgu í markinu, hefur hinsvegar átt svar við öllum tilraunum Finna.

Finnar halda áfram að sækja en skapa sér ekki mörg opin færi.  Helst að marki Íslands sé ógnað með langskotum en Guðbjörg hefur varið vel.  Margrét Lára átti ágætis tækifæri á 60. mínútu en skot hennar fór beint á markvörð Finna.  Stuttu síðar átti hún skot að marki sem markvörðurinn varði og var Katrín Ómarsdóttir hársbreidd frá því að ná boltanum sem markvörðurinn missti frá sér.

Íslenska liðið fékk svo aukaspyrnu á vítateigslínu á 63. mínútu en skot Margétar Láru hafnaði í varnarveggnum.  Guðbjörg ver svo tvo langskot vel með fimm mínútna millibili en á 80. mínútu fá Finnar sín bestu færi í síðari hálfleik og ver þá Guðbjörg tvisvar sinnum með stuttu millibili frá Finnum eftir þvögu í teignum.

Finnska liðið hefur verið mun meira með boltann en íslenska liðið hefur varist skynsamlega og verið ógnandi í skyndisóknum.

3-0  Guðrún Sóley Gunnarsdóttir skorar þriðja mark Íslands í uppbótartíma.  Markið kemur eftir hornspyrnu og tekst finnska liðinu ekki að hreinsa frá marki og Guðrún Sóley skorar með skoti af stuttu færi.

Flautað hefur verið til leiksloka og hafa íslensku stelpurnar sigrað sinn fjórða leik í röð á mótinu.  Markatalan er glæsileg, 12-1 og sjöunda sæti mótsins staðreynd.  Mótið er styrkleikaskipt þannig að íslenska liðið hafnaði eins ofarlega og mögulegt var.

Leikskýrsla

Bandaríkin sigruðu Dani í úrslitaleik mótsins, 2-1.  Norðmenn urðu í þriðja sæti eftir sigur á heimsmeisturum Þjóðverja, 2-0.  Svíar hrepptu fimmta sætið með 3-0 sigri á Ítalíu.  Þá varð Kína í níunda sæti eftir sigur á Portúgal í vítaspyrnukeppni og Pólland lenti í ellefta sæti eftir að hafa lagt Íra, einnig eftir vítaspyrnukeppni.