• þri. 11. mar. 2008
  • Landslið

Leikið við Finna um 7. sætið

Byrjunarlið Íslands fyrir leikinn gegn Póllandi á Algarve Cup 2008
Algarve_2008_Polland

Ísland mætir Finnum í leik um 7. sætið á Algarve Cup og hefst leikurinn kl. 10:30 að íslenskum tíma.  Fyrirliði Íslands, Katrín Jónsdóttir, leikur sinn 70. landsleik og setur þar með landsleikjamet en fyrra metið átti Ásthildur Helgadóttir.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur tilkynnt byrjunarlið Íslands í leiknum og er það þannig skipað:

Byrjunarliðið(4-3-3):

Markvörður: Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hægri bakvörður: Ásta Árnadóttir

Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir

Miðverðir: Guðrún Sóley Gunnarsdóttir og Katrín Jónsdóttir, fyrirliði

Varnartengiliðir: Edda Garðarsdóttir og Dóra Stefánsdóttir

Sóknartengiliður: Sara Björk Gunnarsdóttir

Hægri kantur: Rakel Hönnudóttir

Vinstri kantur: Guðný Björk Óðinsdóttir

Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir

Smávægileg meiðsli hafa hrjáð nokkra leikmenn í ferðinni en allir leikmenn eru klárir í slaginn fyrir þennan leik.

Íslenska liðið hefur unnið alla leiki sína til þessa á Algarve Cup og sigraði því Úr leik Íslands og Portúgals frá árinu 2006örugglega í C riðli.  Liðið hefur skorað níu mörk í þessum þremur leikjum og einungis fengið á sig eitt mark.  Margrét Lára Viðarsdóttir hefur skorað fimm mörk í þessum leikjum og er markahæst allra leikmanna á Algarve Cup.  Hún hefur skorað í sjö landsleikjum í röð og hefur hún skorað 18 mörk í síðustu 14 landsleikjum sínum.

Íslenska liðið mætir nú Finnum en finnska liðið varð í neðsta sæti A-riðils.  Þar var liðið með geysisterkum þjóðum í riðli.  Finnar töpuðu gegn Svíum 1-3, gegn Þjóðverjum 0-3 og loks 0-1 gegn Dönum en danska liðið leikur til úrslita á mótinu gegn Bandaríkjunum.  Finnland er í 16. sæti á styrkleikalista FIFA hjá konunum en Ísland er í 21. sæti.

Ísland hefur mætt Finnum fjórum sinnum í A landsleik kvenna og hafa Finnar yfirhöndina í þessum viðureignum.  Þrisvar sinnum hafa Finnar farið með sigur af hólmi en í eitt skipti hefur sigurinn verið íslenskur.  Það var fyrir réttum tólf árum, 11. mars 1996 og var leikurinn vináttulandsleikur sem leikinn var í Portúgal.  Ísland vann með þremur mörkum gegn einu, með tveimur mörkum frá Ásthildi Helgadóttur og einu frá Helgu Ósk Hannesdóttur.  Þetta eru einu mörkin sem Ísland hefur skorað í þessum fjórum leikjum gegn Finnum.  Í þessum leik lék Katrín Jónsdóttir sinn sjöunda landsleik og nú, tólf árum síðar, leikur hún sinn 70. landsleik.

Katrín Jónsdóttir í leik gegn Tékkum á Laugardalsvelli 2006Katrín lék sinn fyrsta landsleik árið 1994 þegar hún kom inn á sem varamaður í vináttulandsleik gegn Skotum í Glasgow.  Íslenska liðið vann þann leik með fjórum mörkum gegn einu.  Katrín lék 11 landsleiki fyrir U17 landsliðið, þann fyrsta árið 1992 og 27 leiki fyrir U21 landsliðið.  Landsleikirnir eru því alls orðnir 107 fyrir Íslands hönd og er tímamótaleikur Katrínar gegn Finnum því enn ein skrautfjöður í hatt þessa frábæra leikmanns.

Fylgst verður með leiknum gegn Finnum hér á heimasíðunni.

Ísland - Finnland

Leikurinn byrjar með miklu fjöri og eiga bæði lið góð færi í fyrstu mínútum leiksins.  Guðbjörg ver vel þegar finnskur sóknarmaður er komin ein innfyrir.

1-0  Margrét Lára Viðarsdóttir hefur komið Íslandi yfir með fallegu marki með langskoti.  Íslenska liðið hefur sótt meira en finnska liðið ógnar líka.  Magrét Lára hefur því skorað í 8 landsleikjum í röð og 19 mörk í síðustu 15 landsleikjum.  Hún hefur gert 35 mörk í 39 A landsleikjum.

Fjörið heldur áfram og eru liðin hvött áfram af 400 skólabörnum sem setja skemmtilegan svip á leikinn.

Guðbjörg markvörður varði tvisvar sinnum vel eftir markið fyrst á 14. mínútu og svo á 19. mínútu.  Stuttu síðar átti Katrín Jónsdóttir skalla rétt yfir og fimm mínútum síðar átti hún skot naumlega framhjá.  Margrét Lára komst svo í gott færi á 27. mínútu en hitti boltann illa og markvörður Finna varði boltann.

2-0  Rakel Hönnudóttir skorar sitt fyrsta A landsliðsmark.  Ásta Árnadóttir tekur langt innkast með því að taka kraftstökk.  Boltinn berst til Rakelar sem kemur boltanum af harðfylgi í markið.  Markið kemur á 41. mínútu.  Þetta er fyrsta A landsliðsmarkið hjá Rakel og kemur það í hennar þriðja landsleik.

Leikurinn hefur verið í nokkru jafnvæg en íslenska liðið hefur verið hættulegra.  Bakverðir liðsins hafa verið duglegir að taka þátt í sóknarleiknum og sérstaklega hefur Ólína G. Viðarsdóttir verið öflug upp vinstri kantinn.

Dómari leiksins, sem kemur frá Suður Kóreu, hefur flautað til leikhlés.  Góður fyrri hálfleikur hjá íslenska liðinu og tveggja marka forysta staðreynd.

Fyrsta færi síðari hálfleiksins fellur í hlut Íslendinga þegar að Margrét Lára kemst í gegn á 51. mínútu en skot hennar fer naumlega framhjá.  Finnar hafa bætt í sóknarleikinn og hafa sótt mikið síðustu mínútur.  Vörn Íslands með Guðbjörgu í markinu, hefur hinsvegar átt svar við öllum tilraunum Finna.

Finnar halda áfram að sækja en skapa sér ekki mörg opin færi.  Helst að marki Íslands sé ógnað með langskotum en Guðbjörg hefur varið vel.  Margrét Lára átti ágætis tækifæri á 60. mínútu en skot hennar fór beint á markvörð Finna.  Stuttu síðar átti hún skot að marki sem markvörðurinn varði og var Katrín Ómarsdóttir hársbreidd frá því að ná boltanum sem markvörðurinn missti frá sér.

Íslenska liðið fékk svo aukaspyrnu á vítateigslínu á 63. mínútu en skot Margétar Láru hafnaði í varnarveggnum.  Guðbjörg ver svo tvo langskot vel með fimm mínútna millibili en á 80. mínútu fá Finnar sín bestu færi í síðari hálfleik og ver þá Guðbjörg tvisvar sinnum með stuttu millibili frá Finnum eftir þvögu í teignum.

Finnska liðið hefur verið mun meira með boltann en íslenska liðið hefur varist skynsamlega og verið ógnandi í skyndisóknum.

3-0  Guðrún Sóley Gunnarsdóttir skorar þriðja mark Íslands í uppbótartíma.  Markið kemur eftir hornspyrnu og tekst finnska liðinu ekki að hreinsa frá marki og Guðrún Sóley skorar með skoti af stuttu færi.

Flautað hefur verið til leiksloka og hafa íslensku stelpurnar sigrað sinn fjórða leik í röð á mótinu.  Markatalan er glæsileg, 12-1 og sjöunda sæti mótsins staðreynd.  Mótið er styrkleikaskipt þannig að íslenska liðið hafnaði eins ofarlega og mögulegt var.