Leikið við Portúgal í dag kl. 15:45
Íslenska kvennalandsliðið leikur lokaleik sinn í riðlakeppni á Algarve Cup í dag, mánudag. Mótherjarnir verða heimastúlkur í Portúgal og hefst leikurinn kl. 15:45. Íslenska liðinu dugir jafntefli til þess að lenda í efsta sæti riðilsins og leika um sjöunda sætið í mótinu. Með sigri eru það Portúgal sem tryggja sér efsta sætið og íslenska liðið leikur um níunda sætið.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur tilkynnt byrjunarlið sitt fyrir leikinn gegn Portúgal.
Byrjunarliðið (4-3-3):
Markvörður: Guðbjörg Gunnarsdóttir
Hægri bakvörður: Ólína Viðarsdóttir
Vinstri bakvörður: Hallbera Guðný Gísladóttir
Miðverðir: Guðrún Sóley Gunnarsdóttir og Katrín Jónsdóttir, fyrirliði
Varnartengiliðir: Edda Garðarsdóttir og Erla Steina Arnardóttir
Sóknartengiliður: Sara Björk Gunnarsdóttir
Hægri kantur: Rakel Hönnudóttir
Vinstri kantur: Guðný Björk Óðinsdóttir
Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir
Fylgst verður með gangi leiksins hér á síðunni á meðan leik stendur.
Ísland - Portúgal
Dómari leiksins kemur frá Costa Rica og aðstoðardómarar frá Urguay og Paraguay. Fjórði dómari er frá Bólivíu.
Katrín Jónsdóttir, fyrirliði Íslands, leikur sinn 69. landsleik og jafnar þar með landsleikjamet Ásthildar Helgadóttur. Erla Steina Arnardóttir leikur í dag sinn 25. landsleik.
Það lið sem sigrar í C-riðli leikur um sjöunda sæti mótsins en liðið í öðru sæti leikur um níunda sætið.
Leikurinn er hafinn í Portúgal og hefur leikurinn verið jafn framan af. Besta færið hingað til fékk hinsvegar Rakel Hönnudóttir á 7. mínútu. Hún átti þá gott skot í þverslánna eftir góðan einleik í gegnum vörn Portúgal.
1-0 Margrét Lára Viðarsdóttir hefur komið Íslandi yfir á 15. mínútu. Hún fékk sendingu inn fyrir vörn Portúgal og setti boltann framhjá markverði Portúgal úr nokkuð þröngu færi.
2-0 Íþróttamaður ársins, Margrét Lára Viðarsdóttir hefur bætt við öðru marki sínu og Íslands á 18. mínútu. Edda Garðarsdóttir tók þá góða hornspyrnu og það var Margrét Lára sem stangaði boltann í netið af stuttu færi.
Góður kafli hjá íslenska liðinu sem er mun sterkari aðilinn. Stuttu eftir annað markið komst Margrét Lára í gegnum vörnina og renndi boltanum á Söru en markvörður Portúgal var á undan í boltann. Stuttu síðar á Guðný fyrirgjöf fyrir markið en Rakel var aðeins hársbreidd frá því að ná til boltans.
Á 24. mínútu á Edda aukaspyrnu og í þetta skiptið var fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir hársbreidd frá því að reka höfuðið í boltanum og hefði þá ekki þurft að spyrja að niðurstöðunni. Auka- og hornspyrnu Eddu hafa valdið miklum usla í portúgölsku vörninni.
Á 26. mínútu setti Margrét Lára boltann í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Mínútu síðar er dæmd aukaspyrna á vítateigslínu eftir að brotið hafði verið á Rakel Hönnudóttur en skot títtnefndar Margrétar fór framhjá.
Á 33. mínútu kom svo fyrsta áminning leiksins og var það Sara Björk Gunnarsdóttir sem var færð til bókar hjá dómaranum.
Á 38. mínútu tekur Edda aukaspyrnu og Rakel á góðan skalla en beint á markvörðinn og stuttu síðar á Hallbera Guðný Gísladóttir góða fyrirgjöf en heimastúlkur bjarga á síðustu stundu.
Á síðustu mínútu hálfleiksins sóttu svo Portúgalar nokkuð stíft og fengu upp úr því tvær hornspyrnu en íslenska vörnin var vel á verði, líkt og hingað til í fyrri hálfleiknum.
Flautað hefur verið til hálfleiks og leiða Íslendingar með tveimur mörkum gegn engu.
Það er heimaliðið sem lætur fyrr af sér kveða í seinni hálfleik og eftir aðeins þrjár mínútur ver Guðbjörg vel langskot frá Portúgölum. Gerðar eru tvær breytingar á íslenska liðinu 52. mínútu kemur m.a. Katrín Ómarsdóttir þá inná en þetta er hennar fyrsti leikur í mótinu en hún meiddist á fyrstu æfingu liðsins.
Heimastúlkur sækja heldur meira og á 57. mínútu eiga þær skot sem fer naumlega framhjá. Edda á svo skot úr aukaspyrnu af löngu færi stuttu síðar en markvörðurinn sá við henni. Á 61. mínútu kemur svo besta færi Portúgala í leiknum en Guðbjörg ver þá mjög vel eftir að sóknarmaður þeirra komst ein í gegnum vörnina
3-0 Íslendingar fá hornspyrnu á 69. mínútu og eftir mikla þvögu er það fyrirliðinn, Katrín Jónsdóttir, sem kemur boltanum í netið. Þetta er 10. mark hennar í 69 landsleikjum. Hún fer svo af leikvelli mínútu síðar og er það Margrét Lára sem að tekur við fyrirliðabandinu.
Síðustu 20 mínútur leiksins hafa verið tíðindalitlar og ekki frá því að örli örlítið af þreytu hjá liðunum enda þriðji leikurinn á sex dögum.
Góður dómari leiksins, frá Costa Rica, hefur flautað til leiksloka og öruggur sigur Íslands staðreynd.
Íslenska liðið mun því leika um sjöunda sætið á mótinu á miðvikudaginn og verða mótherjarnir Finnar.