• fös. 07. mar. 2008
  • Landslið

Leikið við Írland í dag

Landsliðið eftir sigur á Kína á Algarve Cup árið 2007
Algarve_2007_Kina

Kvennalandsliðið leikur sinn annan leik á Algarve Cup í dag, föstudag, þegar liðið mætir Írum.  Stelpurnar lögðu Pólland í fyrsta leik sínum á mótinu en Írar töpuðu gegn Portúgal.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt byrjunarliðið fyrir leikinn gegn Írum.

Byrjunarliðið (4-3-3):

Markvörður: Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hægri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir

Vinstri bakvörður: Hallbera Guðný Gísladóttir

Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir

Varnartengilðir: Dóra Stefánsdóttir og Edda Garðarsdóttir

Sóknartengiliður: Sara Björk Gunnarsdóttir

Hægri kantur: Erla Steina Arnardóttir

Vinstri kantur: Guðný Björk Óðinsdóttir

Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir

Aðstæður eru mjög góðar á Algarve og var hitinn í gær um 25 stig.  Smávægileg meiðsli eru að hrjá þrjá leikmenn og er óvíst um þátttöku þeirra í leiknum gegn Írum.  Þetta eru þær Katrín Ómarsdóttir, Rakel Hönnudóttir og Greta Mjöll Samúelsdóttir. 

Leikurinn hefst kl. 16:30 að íslenskum tíma og verður fylgst með leiknum hér á síðunni.

Ísland - Írland

Leikurinn hafinn í Portúgal og Írar áttu tvö fyrstu skotin í leiknum en bæði fóru þau framhjá.  Margrét Lára fékk svo ágætis færi á 5. mínútu en skaut framhjá.

Annan leikinn í röð eru sex dómarar á leik íslenska liðsins.  Dómari leiksins kemur frá Guineu.

1-0  Erla Steina Arnardóttir kemur Íslendingum yfir eftir góða sendingu frá Guðný Björk Óðinsdóttur.  Markið kemur á 7. mínútu

2-0  Markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir er búin að skora og kemur markið á 12. mínútu.  Markið kemur eftir góðan undirbúning frá Söru Björk Gunnarsdóttur og Guðný Björk Óðinsdóttur.

3-0  Sara Björk Gunnarsdóttir hefur komið Íslandi í þriggja marka forystu eftir 18. mínútna leik.  Markið kom eftir mikið harðfylgi hjá henni, hún hirti boltann af varnarmanni, fór ein í gegn og renndi boltanum í netið.  Þetta er fyrsta landsliðsmark Söru Bjarkar og kemur það í hennar þriðja landsleik.

3-1  Írar minnka muninn á 23. mínútu eftir ákaflega vel útfærða aukaspyrnu.  Stuttu síðar fengu þær hornspyrnu og bjargaði Guðný á marklínu.  Íslenska liðið sækir meira í leiknum en írska liðið er skeinuhætt í skyndisóknum.

4-1  Margrét Lára Viðarsdóttir skorar eftir að hafa fengið langa sendingu frá vörn íslenska liðsins.  Mikið fjör í þessum leik eins og tölurnar gefa til kynna.

Það er kominn hálfleikur og staðan 4-1 fyrir Ísland.  Leikurinn hefur verið virkilega fjörugur en eins og tölurnar gefa til kynna, hefur íslenska liðið sótt mun meira.  Írska liðið er hinsvegar skeinuhætt í skyndisóknum og föstum leikatriðum.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn þokkalega en fljótlega dofnaði yfir leiknum og er leikurinn jafn en ekki miklir sóknartilburðir.  Þegar um 15 mínútur eru eftir af leiknum hafa verið gerðar fimm breytingar á íslenska liðinu.  Edda Garðarsdóttir tók við fyrirliðabandinu þegar Katrínu Jónsdóttur var skipt útaf.

Leiknum er lokið með lokatölunum 4-1.  Seinni hálfleikur mun mikið mun rólegri heldur en sá fyrri og íslenska liðið sótti ekki eins stíft.  Hinsvegar varðist liðið skynsamlega og náði írska liðið ekki að skapa sér nein afgerandi marktækifæri.  Sigurður Ragnar gerði sex breytingar í síðari hálfleiknum.

Leikskýrsla