• fös. 07. mar. 2008
  • Lög og reglugerðir

Breytingar á reglugerðum samþykktar á stjórnarfundi

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum þann 6. mars 2008 breytingar á reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga og á reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. 

Breyting á reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga

Í samræmi við breytingu á reglugerð FIFA um félagaskipti og samninga samþykkir stjórnin viðbót við grein 14. í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga.  Við bætast greinar 14.1. og 14.2. og númerast aðrar greinar í samræmi við breytinguna:

14.1. Félagi er óheimilt að gera samning við leikmann eða félagaskiptasamning sem gerir öðrum samningsaðila, eða þriðja aðila, kleift að hafa áhrif á sjálfstæði félagsins, stefnumál þess eða frammistöðu keppnisliða

14.2.  Samninga- og félagaskiptanefnd getur beitt félög viðurlögum við brotum á reglu þessari skv. 24.grein reglugerðar KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga.”

Breytingin tekur á því að aðkoma þriðja aðila að samningagerð geti haft áhrif á sjálfstæði félags, (fjárhagslegs eða annars sjálfstæðis)  stefnumál eða frammistöðu keppnisliða.  Breytingin er gerð af FIFA í ljósi mála sem upp hafa komið þar sem leikmenn hafa verið í “eigu” þriðja aðila og hefur það haft áhrif á sjálfstæði og stöðu félaga. 

Breytingin tekur gildi nú þegar

 

Breyting á reglugerð KSÍ um knattspyrnumót

Stjórn KSÍ samþykkti eftirfarandi tillögu mótanefndar á breytingu á reglugerð um knattspyrnumót, breytingar ská- og feitletraðar:

                                                                30.gr.

Eldri flokkur karla 30 ára og eldri

Aldur: 30 ára á almanaksárinu og eldri.

Leiktími: 60 mín. (2 x 30 mín.)

Leikhlé: 10 mín.

Framlenging: 15 mín. (2 x 7,5 mín.)

Leikmannaskipti: Skv. reglugerð KSÍ um knattspyrnu í 7 manna liðum.

Stærð knattar: 5.

Keppni fer fram skv. reglugerð KSÍ um knattspyrnu í 7 manna liðum.

30.1.    Íslandsmót – 7 manna lið

30.1.1. Hlutgengir til þátttöku eru leikmenn sem verða 30 ára á almanaksárinu og eldri.

30.1.2. Leikreglur skulu fylgja knattspyrnulögunum og reglugerð KSÍ um knattspyrnumót nema annað sé tekið fram í reglugerð KSÍ um knattspyrnu í 7 manna liðum.

30.1.3. Hverju félagi er heimilt að senda tvö lið til keppni. Sami leikmaður félags er þá aðeins hlutgengur með öðru liðinu.

30.1.4. Mótanefnd skal ákveða fyrirkomulag mótsins þegar þátttaka liggur fyrir.

Breytingin felur í sér að framvegis verður leikið í 7 manna liðum í Íslandsmóti eldri flokks karla 30 ára og eldri og leiktími er styttur.

Breytingin tekur gildi nú þegar.