50 þjálfarar sóttu fyrirlestra ensku landsliðsþjálfaranna
John Peacock og Brian Eastick héldu opinn fyrirlestur fyrir 50 þjálfara í fræðslusetri KSÍ síðastliðin laugardag. Þeir John og Brian eru landsliðsþjálfarar Englands í U17, U-18, U-19 og U-20 ára aldurshópunum. Fyrst var haldinn bóklegur fyrirlestur í höfuðstöðvum KSÍ og eftir það var haldið í Egilshöllina, þar sem þeir félagar voru með verklega kennslu hjá leikmönnum 2.flokks Vals. Margt fróðlegt kom fram í fyrirlestrunum og æfingunum sem voru settar upp.
Á sunnudeginum héldu John og Brian svo þjálfarafund með öllum landsliðsþjálfurum, aðstoðarlandsliðsþjálfurum og markmannsþjálfurum landsliðanna og fóru þar yfir ýmis atriði sem tengjast starfi landsliðsþjálfarans, leikaðferðina 4-3-3, hugmyndafræði þeirra og enska knattspyrnusambandsins þegar kemur að starfi landsliðanna og fleira.
Á næstu mánuðum stefnir KSÍ á að fá fleiri erlenda fyrirlesara til landsins og halda þannig áfram að leggja ríka áherslu á þjálfaramenntun hjá íslenskum þjálfurum.
KSÍ vill þakka þeim sem sóttu fyrirlestrana kærlega fyrir komuna og vonar að þjálfararnir muni njóta góðs af þessari heimsókn.
Mynd: Frá vinstri Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ, John Peacock, Brian Eastick og Dagur Sveinn Dagbjartsson, starfsmaður fræðslumála hjá KSÍ.