Fastnúmerakerfi í Landsbankadeild kvenna og 1. deild karla
Ákveðið hefur verið að taka upp fastnúmerakerfi í Landsbankadeild kvenna og 1. deild karla frá og með keppnistímabilinu 2008. Líkt og í Landsbankadeild karla verða leikmenn í fyrrgreindum deildum nú númeraðir 1-30 og skulu þeir bera sitt treyjunúmer allt keppnistímabilið. Séu leikmenn fleiri en 30 er fyrst úthlutað treyjunúmeri 31, síðan 32 o.s.frv.
Þá var ákveðið að í öðrum mótum í keppni 11 manna liða gildi nú almennt að leikmenn beri númerin 1-30, en þess er þó ekki krafist að þeir beri sama númerið allt keppnistímabilið, þ.e. ekki fastnúmerakerfi.
Í yngri flokkum var einnig komið til móts við óskir félaganna og veitt svigrúm þegar kemur að treyjunúmerum. Félögum er nú heimilt að nota númerakerfið 1-99 í yngstu flokkum, þar sem algengara er orðið að hver leikmaður eigi sína treyju.
Í yngri flokkum í keppni 11 manna liða ber félagi að nota númer 1-30 en þegar hópur iðkenda er fjölmennari getur félag notað númer frá 1-99
Ítrekuð hefur þó verið sú skylda að við skráningu á leikskýrslu skal fyrst skrá markvörð og síðan aðra leikmenn í númeraröð, fyrst byrjunarlið og síðan varamenn.