Ávarp formanns á 62. ársþingi KSÍ
Hér að neðan má sjá ávarp formanns KSÍ, Geirs Þorsteinssonar, á 62. ársþingi KSÍ sem fram fór í dag. Ársþingið var haldið í fyrsta skiptið í nýjum höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal.
Góðir þingfulltrúar.
Það er oft talað um pýramídaskipulag knattspyrnunnar og hversu mikilvægt sé að standa vörð um það. Á undanförnum árum hefur forystumönnum UEFA og FIFA verið tíðrætt um þetta í baráttu við stærstu og ríkustu félagslið Evrópu og í baráttu fyrir viðurkenningu á sérstöðu íþrótta innan Evrópusambandsins. Nú hafa UEFA og FIFA nýlega náð samkomulagi við stærstu félög Evrópu og knattspyrnuhreyfingin er sameinuð. Evrópusambandið steig mikilvægt skref í þá átt að viðurkenna sérstöðu íþrótta á árinu sem vonandi mun efla sjálfstæði þeirra í samfélagi þjóðanna. Þó að knattspyrnunni fylgi gríðarleg viðskipti, sér í lagi í keppni hinna bestu, þá má knattspyrnuleikurinn ekki lúta lögmálum hins frjálsa markaðar þar sem allt er fallt ef rétt verð er í boði. Pýramídaskipulagið verður að halda og þeir sem eru í fremstu röð verða að standa vörð um grasrótina, þaðan sem allir leikmenn koma.
En hvað varðar okkur um þessi mál hér á Íslandi. Jú, íslensk knattspyrna byggir á sömu lögmálum. Við verðum að standa vörð um pýramídaskipulag knattspyrnunnar og það mikla uppbyggingarstarf sem unnið er um land allt. Það er skylda okkar að vinna að uppbyggingu knattspyrnunnar á öllum stigum með hagsmuni heildarinnar í huga. Í þessu starfi verðum við að temja okkur víðsýni. Það er ekki nóg að knattspyrnan þrífist eingöngu á höfuðborgarsvæðinu - við verðum að ná til landsins alls. Byggðaþróun hefur auðvitað mikið að segja og getur gert okkur erfitt fyrir en við verðum að halda vöku okkar. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að stjórn KSÍ hefur ákveðið að skerpa á hlutverki landshlutafulltrúanna og skipuleggja betur þeirra störf á landssvæðunum þannig að þeir verði í nánari sambandi við aðildarfélög KSÍ. Fundir verða haldnir á landsvæðunum á hverju vori fyrir upphaf keppnistímabilsins með aðildarfélögum og forystufólki KSÍ auk þess sem landshlutafulltrúar stefna að heimsókn til hvers og eins félags, á stjórnar- eða aðalfund. Annað mikilvægt skref til jafnaðar var tekið þegar stjórn KSÍ ákvað að greiða barna- og unglingastyrk til allra félaga innan okkar vébanda í fyrsta sinn svo fremi sem þau sinni slíku starfi og taki þátt í mótum á vegum sambandsins. Til viðbótar við framlag UEFA sem var tæpar 20 m. kr. var bætt 17 m. kr. úr sjóðum KSÍ. Nú hyllir undir fyrstu úthlutun á ferðastyrk til íþróttafélaga og er það vel þó að ekki séu miklir fjármunir til skiptanna. Vonandi sóttu öll okkar aðildarfélög um slíkan styrk til ÍSÍ - þannig má best meta þörfina. KSÍ mun fylgjast vel með framgangi þessa máls og standa vörð um hagsmuni okkar aðildarfélaga.
Fjárframlög til aðildarfélaga frá sambandinu voru meiri en áður hefur þekkst í starfi KSÍ en auðvitað er þörfin mikil. KSÍ hefur miklum og vaxandi skyldum að gegna en öflug aðildarfélög eru hins vegar forsenda framfara. Með þetta í huga vil ég greina ykkur frá þeirri hugmynd minni að KSÍ greiði í framtíðinni aðildarfélögum sínum afreksstyrk þegar leikmenn taka þátt í forkeppni EM eða HM með A landsliði Íslands. Þetta gæti verið um hálf til ein miljón króna á leik sem skiptist á milli aðildarfélaga KSÍ, núverandi félags leikmanns og þeirra félaga sem hann hefur verið í frá 12 ára aldri. Það er von mín að þetta geti orðið að veruleika - ekki síðar en 2010.
KSÍ hefur átt frábært samstarf við ríkisvaldið og sveitastjórnir sl. ár við uppbyggingu sparkvalla, aðstöðu áhorfenda og hvers kyns knattspyrnumannvirkja. Í raun hefur grettistaki verið lyft í þessum málaflokki á síðasta áratug. Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum 17. janúar sl. reglugerð um mannvirkjasjóð KSÍ og við höfum þegar fengið 15 m. kr. framlag úr ríkissjóði í hann. Hugmyndin er sú að úthluta árlega um 50 m. kr. næstu 4 árin til mannvirkjagerðar og mun Lúðvík S. Georgsson gera betur grein fyrir þessu síðar í dag.
Ég ætla ekki að rekja viðburði sl. árs í löngu máli - þeim er gerð góð skil í ársskýrslu KSÍ. Ég vil þó óska sigurvegurum ársins til hamingju - Val sem varð Íslandsmeistari í meistaraflokki karla og kvenna - FH sem varð bikarmeistari í meistaraflokki karla - og KR sem varð bikarmeistari í meistaraflokki kvenna. Aldrei hafa jafn mörg félög farið upp um deild í Íslandsmóti meistaraflokks vegna fjölgunar og hleypti það miklu lífi í Íslandsmótið. Hamingjuóskir til allra félaga sem náðu að færa sig upp um deild. Framundan er keppnistímabil með nýju fyrirkomulagi - 12 lið í þremur efstu deildum Íslandsmóts karla og 10 lið í Landsbankadeild kvenna í fyrsta sinn. Reynslan af 12 liða 1. deild karla var góð og gefur góð fyrirheit um komandi knattspyrnusumar. Leyfiskerfi KSÍ hefur verið útvíkkað og nú gangast í fyrsta sinn 24 lið, þ. e liðin sem unnið hafa sér rétt til þátttöku í Landsbankadeild karla og 1. deild karla, undir kröfur þær sem settar eru fram í leyfishandbók KSÍ. Rétt er að hvetja félögin til dáða en nú nálgast skiladagur fyrir fjárhagsleg gögn þ. e. 20. febrúar. Ég get greint frá því að þau gögn sem félögin skiluðu 15. janúar sl. líta í heild vel út og vil ég hrósa félögunum fyrir þau skil.
Árið var mér persónulega minnisstætt - ég var glaður og stoltur að fá traust ykkar til að gegna starfi formanns. Knattspyrnuleikurinn er mér hjartans mál. Það má líka segja um góðan vin okkar Halldór B Jónsson, varaformann, sem veiktist alvarlega á árinu. Halldór var heilinn og hjartað í skipulagningu íslenskrar knattspyrnu til svo margra ára. Halldór er nú allur að braggast og ég vona að þið sjáið hann hressan á vellinum í sumar. Auðvitað tók á að missa svo öflugan mann úr starfinu og þá var mikið átak að ljúka endurbótum á vesturstúku Laugardalsvallar og byggingu nýrra höfuðstöðva KSÍ sem hýsa skrifstofur, fræðslusetur og þjónusturými fyrir völlinn. Þess dagana vinnum við að uppgjör á kostnaði við framkvæmdirnar en þær fóru töluvert fram úr áætlun. Við munum vonandi ljúka því máli í góðri sátt við Reykjavíkurborg og KSÍ til heilla. Vígsla höfuðstöðva KSÍ í sumar var hápunktur 60 ára afmælis KSÍ ásamt því að halda hér úrslitakeppni EM U19 kvenna. Framkvæmd keppninnar var KSÍ til sóma. Mikilvægt var að ljúka starfsárinu með því að framlengja núverandi samstarf okkar við Sportfive hvað varðar sjónvarps- og markaðsrétt KSÍ til tveggja ára eða fyrir árin 2010 og 2011.
Ég hef lítið sem ekkert rætt um leikinn sjálfan. Árið var erfitt hjá A landsliðið karla á meðan A landslið kvenna gerði frábæra hluti. Það var mikil viðurkenning fyrir knattspyrnu kvenna þegar Margrét Lára Viðarsdóttir var kjörinn íþróttamaður ársins. Í heild stóðu yngri landsliðin sig vel. Það góða við knattspyrnuna er að nýtt ár býður ávallt upp á ný tækifæri og það er mikilvægt að Ísland standi sig vel á knattspyrnuvellinum á þessu ári. Draumurinn um að komast í úrslitakeppni EM gæti ræst hjá A landsliði kvenna en á sama tíma þarf A landslið karla að sanna sig í forkeppni HM 2010 á móti öflugum knattspyrnuþjóðum. Ólafur Jóhannesson tók við stjórn liðsins 1. nóvember sl. Ég óska honum alls hins besta í komandi átökum um leið og ég þakka Eyjólfi Sverrissyni góð störf og frábært samtarf. Það er mikilvægt að við sem hér erum stöndum við bakið á landsliðsþjálfaranum og aðstoðum hann í vandasömu verkefni.
Ég lýk máli mínu á að þakka ykkur forystusveit íslenskrar knattspyrnu fyrir frábær störf á starfsárinu og fyrir gott samstarf. Ég er þakklátur fyrir það traust sem þið hafið sýnt mér og óska ykkur gæfu á komandi keppnistímabili. Ársþing KSÍ er vettvangur til umræðu og breytinga, fyrst og fremst nú breytinga á lögum KSÍ og forystu, en með samþykkt nýrra laga KSÍ á síðasta ársþingi er það ekki lengur eitt að meginverkefnum knattspyrnuþings að samþykkja breytingar á reglugerðum KSÍ - það verk liggur nú hjá stjórn KSÍ. Við hittumst hér til að ræða saman formlega, en ekki síður til þess að bera saman bækur okkar með óformlegum hætti.
Verkefnin framundan eru eins og alltaf fjölmörg. KSÍ getur alltaf gert betur og við stefnum ávallt að betri árangri á knattspyrnuvellinum. Í því sambandi verðum við að gera okkur raunhæfar væntingar. Framfarir í knattspyrnu á heimsvísu eru miklar eins og allir sjá og því verður samkeppnin sífellt harðari á alþjóðavettvangi.
Íslensk knattspyrna nýtur nú mikilla vinsælda og íslensk knattspyrnuhreyfing stendur við setningu þessa knattspyrnuþings traustum fótum - ég segi 62. ársþing Knattspyrnusambands Íslands sett.