U21 karla leikur gegn Kýpur í dag
U21 karlalandsliðið leikur við Kýpur í dag en leikurinn er liður í undankeppni EM 2009. Leikið er á Kýpur og hefst leikurinn kl. 13:00 að íslenskum tíma. Ísland er í þriðja sæti riðilsins með sex stig en eini tapleikur Íslands til þessa í keppninni kom í heimaleiknum gegn Kýpur.
Luka Kostic hefur tilkynnt byrjunarliðið en búast má við hörkuleik hjá strákunum sem eru staðráðnir í að selja sig dýrt.
Byrjunarliðið: (4-5-1)
Markvörður: Haraldur Björnsson
Hægri bakvörður: Hólmar Örn Eyjólfsson
Vinstri bakvörður: Gunnar Kristjánsson
Miðverðir: Guðmann Þórisson og Hallgrímur Jónasson
Tengiliðir: Aron Einar Gunnarsson, Bjarni Þór Viðarsson, fyrirliði og Eggert Gunnþór Jónsson
Hægri kantur: Arnór Smárason
Vinstri kantur: Theodór Elmar Bjarnason
Framherji: Birkir Bjarnason
Með sigri getur Ísland skotist upp í annað sæti riðilsins en þar sitja Slóvakar með átta stig.
Kýpur - Ísland
Leikurinn er hafinn á Kýpur við frábærar aðstæður. Sól, 17 stiga hiti og völlurinn góður.
Liðin skiptast á að sækja fyrstu 15 mínúturnar en staðan er ennþá 0-0. Hinsvegar hafa Íslendingar fengið tvö mjög góð marktækifæri á þessum mínútum. Á 8. mínútu átti Arnór Smárason gott skot sem hafnaði í stönginni og tveimur mínútum síðar komst Birkir Bjarnason einn í gegn en markvörður Kýpur sá við honum. Stefnir allt í hörkuleik.
Búið að flauta til hálfleiks og staðan er 0-0 þegar gengið er til búningsherbergja. Þetta er mikill baráttuleikur en bestu færin komu á fyrstu 15 mínútunum. Íslenska liðið hefur verið markvissara í sínum sóknaraðgerðum og hafa fengið þrjú þokkaleg færi síðasta hálftímann af fyrri hálfleik. Leikmenn Kýpur hafa skapað sér lítið, fengið eitt þokkalegt færi en það skot fór beint á Harald í markinu.
Seinni hálfleikur hefur farið illa af stað því eftir 60 mínútur er staðan orðin 2-0 fyrir Kýpur. Á 56. mínútu fengu heimamenn vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr og aðeins tveimur mínútum síðar bættu þeir við marki eftir hornspyrnu. Mörkin komu eins og köld vatnsgusa framan í leikmenn Íslands en leikurinn hafði verið jafn fram að þessu og Íslendingar líklegri upp við markið.
Leiknum er lokið með sigri heimamanna í Kýpur. Íslenska liðið færði sig framar á völlinn þegar leið á hálfleikinn til þess að freista þess að minnka muninn. Við það fengu heimamenn nokkur færi eins og íslenska liðið en hvorugu liðinu tókst að bæta við marki. Lokatölur því 2-0 fyrir Kýpur.