Tap hjá U21 karla gegn Kýpur
Íslenska U21 karlalandsliðið beið lægri hlut í dag gegn Kýpur ytra en leikurinn var í riðlakeppni EM 2009. Lokatölur urðu 2-0 fyrir heimamenn eftir að staðan í hálfleik var 0-0.
Íslenska liðið var hættulegra í jöfnum fyrri hálfleik og fékk tvö mjög góð marktækifæri á fyrstu 10 mínútunum. Arnór Smárason átti skot í stöngina og Birkir Bjarnason komst einn innfyrir en markvörðurinn varði frá honum. Fyrri hálfleikurinn bauð upp á mikla baráttu en íslenska liðið var mun markvissara í sínum sóknaraðgerðum.
Seinni hálfleikur var í jafnvægi en á 56. mínútu fengu heimamenn vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr og aðeins tveimur mínútum síðar bættu þeir við öðru marki eftir hornspyrnu. Íslenska liðið færð sig framar á völlinn og bætti í sóknina en náði ekki að minnka muninn, þrátt fyrir nokkrar ágætis tilraunir. Heimamenn fengu einnig ágæt færi en lokatölur urðu 2-0 fyrir Kýpur.
Hér að neðan má sjá textalýsingu sem birtist hér á heimasíðunni á meðan á leiknum stóð.
Kýpur - Ísland
Leikurinn er hafinn á Kýpur við frábærar aðstæður. Sól, 17 stiga hiti og völlurinn góður.
Liðin skiptast á að sækja fyrstu 15 mínúturnar en staðan er ennþá 0-0. Hinsvegar hafa Íslendingar fengið tvö mjög góð marktækifæri á þessum mínútum. Á 8. mínútu átti Arnór Smárason gott skot sem hafnaði í stönginni og tveimur mínútum síðar komst Birkir Bjarnason einn í gegn en markvörður Kýpur sá við honum. Stefnir allt í hörkuleik.
Búið að flauta til hálfleiks og staðan er 0-0 þegar gengið er til búningsherbergja. Þetta er mikill baráttuleikur en bestu færin komu á fyrstu 15 mínútunum. Íslenska liðið hefur verið markvissara í sínum sóknaraðgerðum og hafa fengið þrjú þokkaleg færi síðasta hálftímann af fyrri hálfleik. Leikmenn Kýpur hafa skapað sér lítið, fengið eitt þokkalegt færi en það skot fór beint á Harald í markinu.
Seinni hálfleikur hefur farið illa af stað því eftir 60 mínútur er staðan orðin 2-0 fyrir Kýpur. Á 56. mínútu fengu heimamenn vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr og aðeins tveimur mínútum síðar bættu þeir við marki eftir hornspyrnu. Mörkin komu eins og köld vatnsgusa framan í leikmenn Íslands en leikurinn hafði verið jafn fram að þessu og Íslendingar líklegri upp við markið.
Leiknum er lokið með sigri heimamanna í Kýpur. Íslenska liðið færði sig framar á völlinn þegar leið á hálfleikinn til þess að freista þess að minnka muninn. Við það fengu heimamenn nokkur færi eins og íslenska liðið en hvorugu liðinu tókst að bæta við marki. Lokatölur því 2-0 fyrir Kýpur.