Góður sigur á Armenum
Íslendingar lögðu Armena að velli í dag en leikurinn var síðasti leikur liðsins á æfingamóti sem fram fór á Möltu. Lokatölur urðu 2-0 Íslendingum í vil og voru það Tryggvi Guðmundsson og Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem skoruðu mörk Íslands.
Leikurinn fór rólega af stað en þegar líða tók á hálfleikinn komust Íslendingar meira inn í leikinn og voru sterkari aðilinn síðustu 15 mínútur hálfleiksins. Það bar ávöxt í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Tryggvi Guðmundsson skoraði af stuttu færi eftir góða sókn og sendingu frá Gunnari Heiðari Þorvaldssyni. Stuttu síðar var flautað til hálfleiks og forystan Íslendinga.
Armenar voru heldur meira með boltann í síðari hálfleik en náðu þó ekki að ógna marki Íslendinga á neinn hátt. Íslenska liðið varðist vel og beitti skyndisóknum og á 72. mínútu bætti Gunnar Heiðar Þorvaldsson við öðru marki eftir snögga sókn og sendingu frá Jónasi Guðna Sævarssyni. Lokamínútur leiksins voru svo tíðindalitlar fyrir utan gott færi sem Jónas Guðni fékk en lokatölur 2-0 Íslandi í vil og fyrsti sigur Ólafs Jóhannessonar sem landsliðsþjálfara í höfn.
Ísland hlaut því þrjú stig á þessu æfingamóti en Armenar eru með sex stig. Malta og Hvíta Rússland leiks svo í kvöld en bæði þessi lið hafa þrjú stig fyrir leikinn.
Hér að neðan má sjá textalýsingu sem birtist á heimasíðunni á meðan leikurinn var í gangi.
Armenía - Ísland
Leikurinn fer rólega af stað og eftir 25 mínútur er staðan 0-0. Hvort lið hefur fengið eitt þokkalegt færi. Tryggvi Guðmundsson átti skalla úr miðjum vítateig sem fór yfir. Armenar eru heldur meira með boltann en leikurinn er í jafnvægi. Heldur er kaldara en síðustu daga á Möltu, hitinn um 10 stig.
Það var verið að flauta til hálfleiks en í uppbótartíma áttu Íslendingar góða sókn sem lauk með því að Tryggvi Guðmundsson skoraði af stuttu færi eftir góða sendingu frá Gunnari Heiðari Þorvaldssyni. Íslendingar höfðu verið sterkari aðilinn síðustu 15 mínúturnar af fyrri hálfleiknum og fengu 2 þokkaleg færi áður en markið kom. Armenía - Ísland 0-1.
Armenar sóttu meira í upphafi seinni hálfleiks og hafa verið meira með boltann án þess þó að skapa sér nein færi. Íslenska liðið hefur varist skynsamlega og beðið eftir að færi gefist á skyndisóknum. Ein slík leit svo dagsins ljós á 72. mínútu þegar að íslenska liðið sótti hratt upp. Sóknin endaði með því að Jónas Guðni Sævarsson sendi inn á Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem að skoraði. Staðan eftir 75 mínútur, Armenía - Ísland 0-2.
Leiknum er lokið með sigri Íslendinga með tveimur mörkum gegn engu. Lokamínútur leiksins voru heldur tíðindalitlar og Armenar ógnuðu ekkert marki Íslendinga. Besta færið fékk hinsvegar Jónas Guðni Sævarsson á lokamínútunum en náði ekki að skora.