• fim. 31. jan. 2008
  • Fræðsla

KSÍ aðili að Grasrótarsáttmála UEFA

Frá afhendingu Grasrótarviðurkenninga 2007
Grasrot

Í dag var undirrituð staðfesting þess efnis að KSÍ hafi verið samþykkt inn í Grasrótarsáttmála UEFA.  Undirritunin fór fram á ársþingi UEFA í Zagreb að viðstöddum Michel Platini, forseta UEFA og David Taylor framkvæmdastjóra UEFA.  Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ og Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ, undirrituðu sáttmálann fyrir hönd Knattspyrnusambands Íslands.

Það voru 9 þjóðir sem voru samþykktar inn í Grasrótarsáttmála UEFA að þessu sinni og eru 30 þjóðir orðnar aðilar að sáttmálanum en 53 þjóðir eru aðilar að UEFA.  Þjóðirnar halda svo áfram að bæta sitt grasrótarstarf og geta með því bætt við sig stjörnum eftir viðmiðunum frá UEFA en allar nýjar þjóðir í sáttmálanum byrja með eina stjörnu. 

Grasrótarstarf getur verið af margvíslegum toga og eru það aðildarfélög KSÍ sem bera þungann af þessu starfi með margvíslegum hætti í hreyfingunni.  KSÍ hefur einnig verið í samstarfi við Íþróttafélag fatlaða varðandi grasrótarstarf og í desember fékk Íþróttafélagið Nes viðurkenningu fyrir Íslandsleika fatlaðra í knattspyrnu er fór fram á síðasta ári.

Mynd: Frá afhendingu grasrótarverðlauna KSÍ í desember 2007.