Njarðvíkingar skila leyfisgögnum
Njarðvíkingar fylgdu fast á hæla Keflvíkinga í morgun og skiluðu leyfisgögnum sínum, þ.e. þeim fylgigögnum með leyfisumsókn sem snúa að öðrum þáttum en fjárhagslegum. Þar með hafa bæði félögin í Reykjanesbæ sem undirgangast leyfiskerfið skilað, með tveggja klukkustunda millibili.
Von er á gögnum frá fleiri félögum í dag og á morgun, 15. janúar, en þá rennur út skilafrestur gagna, annarra en fjárhagslegra. Þess ber þó að geta að leyfisumsækjendur geta sett gögnin í póst dagsettan og stimplaðan 15. janúar, og má reikna með að einhver þeirra félaga sem ekki eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu nýti sér það.