• þri. 08. jan. 2008
  • Landslið

Kvennalandsliðið leikur gegn Finnum

Frá landsleik Íslands og Serbíu, 21. júní 2007 og endaði 5-0 fyrir Ísland
Island_Serbia_kvenna_2007

Íslenska kvennalandsliðið mun leika tvo vináttulandsleiki gegn Finnum ytra 4. og 7. maí næstkomandi.  Leikirnir verða liður í lokaundirbúningi fyrir mikilvægan leik gegn Serbum í Serbíu 28. maí en sá leikur er í undankeppni EM 2009.  Úrslitakeppni þess móts fer einmitt fram í Finnlandi og leika Finnar því ekki í riðlakeppninni þar sem að þeir eru gestgjafar.  Leikirnir gegn Finnum fara væntanlega fram á þeim völlum er notaðir verða í úrslitakeppninni sjálfri.

Fyrirhugað er að Finnar endurgjaldi heimsóknina árið 2009 og leiki þá 1-2 vináttulandsleiki hér á landi.

Íslendingar og Finnar hafa fjórum sinnum mæst hjá A-landsliðum kvenna, síðast árið 1997.  Finnar hafa þrisvar sinnum farið með sigur af hólmi en Íslendingar einu sinni.  Fyrsti leikur þjóðanna fór fram á Kópavogsvelli árið 1983 í undankeppni EM og var þetta fimmti kvennalandsleikur Íslands frá upphafi.  Finnar sigruðu með tveimur mörkum gegn engu.  Eini sigurleikur Íslands gegn Finnum til þessa kom í vináttulandsleik sem leikinn var í Portúgal árið 1996.  Íslenska liðið sigraði þá með þremur mörkum gegn einu og skoraði Ásthildur Helgadóttir tvö marka Íslands og Helga Ósk Hannesdóttir eitt.