• þri. 08. jan. 2008
  • Leyfiskerfi

KA fyrst félaga til að skila leyfisumsókn 2008

KA
KA

KA-menn urðu á mánudag fyrstir til að skila leyfisumsókn fyrir keppnistímabilið 2008.  Alls gangast 24 félög undir leyfiskerfið nú, þar sem kerfið nær til félaga í Landsbankadeild karla og 1. deild karla, og í báðum deildum leika 12 félög á komandi sumri. 

Skiladagsetning fylgigagna með leyfisumsókn, annarra en fjárhagslegra, er 15. janúar.  Ef leyfusumsækjandi (félag) skilar gögnum eftir þann tíma kemur til dagsekta.  Skiladagsetning fjárhagslegra gagna er síðan 20. febrúar.

Gögn sem skilað er fyrir 15. janúar tengjast ýmsum þáttum, s.s. uppeldi ungra leikmanna og menntun þjálfara, lagalegum þáttum, mannvirkjaþáttum o.fl.

Félögum sem undirgangast leyfiskerfið hefur fjölgað gríðarlega á tveimur árum.  Árið 2006 náði kerfið einungis til þeirra 10 liða sem þá léku í Landsbankadeildinni.  Í fyrra þurftu félögin í 1. deild í fyrsta sinn að sækja um þátttökuleyfi, en í þeirri deild var einmitt fjölgað fyrir síðastliðið keppnistímabil.  Fyrir keppnistímabilið 2008 nær kerfið síðan til 24 liða, fleiri en nokkru sinni fyrr.